Danskur markvörður til liðs við Akureyri

Akureyri Handboltafélag hefur gengið frá ráðningu við danska markvörðinn Jesper Sjögren. Gerður var tveggja ára samningur með endurskoðunarákvæði eftir eitt ár. Jesper, sem er 22 ára gamall, kemur frá Ringsted í dönsku úrvalsdeildinni. Hann spilaði einnig með liði Flensburg í Þýskalandi fyrir nokkrum árum þar sem hann var varamarkvörður liðsins auk þess sem hann hefur spilað marga unglingalandsleiki fyrir Dani. Þetta eru góð tíðindi fyrir lið Akureyrar enda hefur félagið misst þrjá markverði í sumar og þar á meðal Sveinbjörn Pétursson sem stóð sig feykilega vel síðasta vetur.

Gestur Einarsson varaformaður handboltafélagsins segir stjórnina vera komna á fullt, mikið sé um fundarhöld þessa dagana þar sem unnið er í mörgum málum og má búast við frekari tíðindum af liðinu innan skamms.

Nýjast