Það hefur verið fínt að gera í sumar. Júní var góður og við finnum sannarlega fyrir auknum ferðamannastraumi í bænum, segir Guðmundur Karl Tryggvason eigandi Bautans á Akureyri. Vaxandi samkeppni er á meðal veitingahúsa í bænum um hylli ferðamanna, sem og heimamanna. Bautinn hefur lengi verið eitt af kennileitum Akureyrar.
Við getum ekki kvartað og finnst bæði ferðalangar og heimamenn vera okkur hliðhollir. Útlendingarnir sækja mikið í salatbarinn hjá okkur og ýmsa fisk- og kjötrétti, hvalur og svartfugl eru t.d. í sérstöku uppáhaldi hjá þeim. Þeir vilja myndarlega íslenska máltíð á meðan Íslendingar eru meira í hamborgurum og pizzum.
Stendur Fabrikkuna af sér
Nýir veitingastaðir skjóta upp kollinum reglulega á Akureyri þessa dagana. Hamborgarafabrikkan opnaði nýverið beint á móti Bautanum og nú síðast Múlaberg á Hótel KEA. Við áttum alveg eins von á að það myndi eitthvað draga úr viðskiptum hjá okkur en það hefur ekki verið raunin og við erum stolt af því.
Nánar um þetta í prentútgáfu Vikudags