Í gær skrifuðu Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, og Jón Hjaltason sagnfræðingur undir samning vegna ritunar sögu Einingar-Iðju. Stefnt er að bókin verði gefin út á fyrri parti ársins 2018, en Jón á að skila lokauppkasti að handriti að fullbúnu riti þann 1. október 2017.
Saga Einingar-Iðju á að vera yfirlit um sögu félagsins og forverum þess og þau málefni sem það hefur einkum unnið að frá árinu 1894 til og með árinu 2004. Fjallað verður um tilurð, þróun og skipulag Einingar-Iðju og forvera félagsins en megináhersla verður lögð á lífskjör fólks, lífshætti, viðhorf og félagslegar aðstæður, og hvernig þessir þættir tengjast starfsemi og baráttu Einingar-Iðju og verkalýðshreyfingarinnar.
Mikil tímamót Þetta eru mikil tímamót, sagði Björn. Kveikjan að þessu núna var málþing sem við héldum í vetur af tilefni 100 ára afmæli Jóns Ingimarssonar fyrrum formanns Iðju félags verksmiðjufólks. Þar var meðal annars verið að rifja upp söguna og margir sem töluðu um hversu mikils virði það væri að halda í söguna fyrir komandi kynslóðir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi umræða hefur átt sér stað en nú er búið að ganga frá samningi um ritun sögunar og fagna ég því. Stjórnin væntir mikil af þessu samstarfi við Jón þar sem hann þekkir vel til allra aðstæðna og sögu hreyfingarinnar á svæðinu.