Halda að Jóli búi við götuna
Seríurnar eru eitthundað talsins og á hverri eru fjörutíu perur, þannig að á trén í garðinum hérna í Áshlíðinni fara fjögur þúsund perur og þeim hefur eðlilega fjölgað með árunum, segir Ragnar Sverrisson formaður Kaupmannafélags Akureyrar. Í síðustu viku voru jólaseríurnar hengdar upp, sú vinna með undirbúningi tekur um viku. Og svo er sjálfsagt svipaður fjöldi pera innandyra, þannig að þetta er vissulega nokkur slatti.
Leikskólar og ferðafólk
Ég verð var við að bæjarbúar fylgjast með okkur, enda eykst umferðin um Áshlíðina verulega á þessum árstíma. Leikskólakrakkar hafa undanfarin ár komið hingað til þess að skoða ljósin, sem er hið besta mál. Einu sinni sagði mér leikskólakennari að börnin hefðu haldið því fram að húsið okkar væri heimili jólasveinsins, þannig að þau hrífast greinilega af ljósunum. Og svo er mér líka sagt að ferðaþjónustufyrirtæki í bænum komi gjarnan með útlendinga hingað, þegar skilyrði til að sjá norðurljósin eru ekki nógu góð. Áshlíðin er sem sagt nokkurs konar plan B hjá fyrirtækinu á þessum árstíma.
Nánar um þetta í prentútgáfu Vikudags