Úrkoman hérna fyrir norðan að undanförnu er bara til bóta og sprettan er betri. Ekki veitir okkur af, segir Þórarinn Ingi Pétursson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Sprettan í júní var frábær, enda veðrið sérstaklega hagstætt á flestan hátt. Þótt úrkoma hafi verið lítil í mánuðinum, er mikill raki í jörðu eftir snjóþungan vetur og erfitt vor. Júní hreinlega bjargaði öllu í þessum efnum, það er bara svo einfalt. Það er því öllu léttara yfir okkur, en við vitum ekkert fyrr en í haust hvernig staðan raunverulega verður. Þeir bændur sem þurftu að endurvinna tún vegna kals, þurftu sannarlega á þessari góðu tíð að halda.
Sláttur er þó víða ekki hafinn fyrir norðan. Feykir greinir frá því að sláttur hefjist líklega eftir tvær vikur í Fljótum.