89. þáttur 11. júlí 2013

Litir í örnefnum

Áður hefur verið á það minnst í þessum þáttum að tungumálið geymi á vissan hátt sögu þjóða og viðhorf fólks til lífsins og tilverunnar. Má jafnvel segja að í tungumálinu felist eins konar heimspeki þjóðar. Örnefni geyma t.a.m. upplifun fólks af umhverfi sínu og tilfinningu fyrir landinu og náttúru þess eins og örnefnin Fagranes, Hreggnasi, Kaldbakur og Jökulfirðir bera með sér. Flest íslensk örnefni eru náttúrunöfn, þ.e.a.s. örnefnin eru mótuð af svip landsins og landsháttum. Norðmenn kalla slík örnefni naturnavn eða terrengnavn og hafa þeir lengið rannsakað slík örnefni. Á stundum er í örnefnum tekin líking af líkama manns eða dýrs, s.s. þegar í örnefnum koma fyrir orð eins og bringa - eða bringur, botn, fótur, haus, háls, kinn, tunga - eða tungur og öxl.

Algengt er að litarorð komi fyrir í íslenskum örnefnum. Sem dæmi má nefna: Blábjörg, sem eru á tveimur stöðum á Austurlandi, Bláfeldur á sunnanverðu Snæfellsnesi, Bláfell og Bláfjöll, sem eru víða um land, Blágnípa, Bláhnjúkur og hið merkilega örnefni Blámannshattur við Eyjafjörð, Bláskógaheiði vestan Skjaldbreiðar, Bláskriða og Bleiksmýrardalur inn af Fnjóskadal, sem nær inn undir Kiðagil á Sprengisandi og mun vera einn lengsti dalur á Íslandi, Grænaborg, Grænafell, Grænahlíð, Grænalón, Grænanes, Grænavatn og Grænihnjúkur og Gullbrekka að ógleymdum sjálfum Gullfossi. Þá eru til mörg Hvítanes og Hvítár eru um sunnan- og vestanvert landið en ekki fyrir austan eða norðan. Þá er Hvítserkur á þremur stöðum á landinu, þótt Hvítserkur við botn Húnafjarðar sé þeirra kunnastur. Enn má nefna Rauðaberg, Rauðafell, Rauðháls, Rauðhóla, Rauðalæk, Rauðamel, Rauðanúp, Rauðasand, Rauðaskriðu, Rauðavatn og Rauðavík. Þá koma fyrir örnefni eins og Svartafell eða Svartafjall, Svartagil, Svartakvísl og margar Svartár, Svartfell, Svartifoss og Svarthamar. Fróðlegt er að velta fyrir sér merkingu og líkingamáli örnefna þegar farið er um landið, hvort heldur er á sumri eða vetri. Gaman væri að fá bréf frá lesendum um slíkt.

Í næst síðasta þætti var minnst á Baldvin Bergvinson Bárðdal, sem átti sér merkilega ævi, fæddur í Sandvík í Bárðardal 1859, kennari víða og skólastjóri í Bolungavík, amtsbókavörður í Stykkishólmi og síðustu æviárin bæjarpóstur á Sauðárkróki, þar sem hann lést 1937. Hafði ég eftir honum vísu sem skáldmæltur lesandi með brageyra benti mér á að væri ekki rétt eftir höfð. Rétt mun vísan vera þannig - með innrími:

 

Bóndinn sá er býr á Egg,

brýnir ljá svo kemur egg,

fór á háa fjallsins egg

og fann þar dávæn smyrils egg.

 

Tek ég undir orð Ara fróða í formála að Íslendingabók frá því um 1120: „En hvatki er missagt er í fræðum þessum þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist.”

Tryggvi Gíslason

 

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast