Tungan geymir í tímans straumi
Skáld hafa lengi velt fyrir sér tungumálinu, ekki síst orðum þess, enda eru orð verkfæri eða tjáningartæki skáldanna og annarra sem eiga sér tungumál. Í kvæðinu Móðir mín segir Einar Benediktsson um frjómátt tungumálsins:
Ég skildi að orð var á Íslandi til
um allt sem er hugsað á jörðu.
Hinn 4. mars 1843 las Jónas Hallgrímsson upp kvæði á fundi í Fjölnisfélaginu í Kaupmannahöfn. Kvæðið kallaði hann Ástu og birtist það í Fjölni sama ár. Kvæðið er óður til móðurmálsins og fjallar um ást skáldsins á skáldskapnum og móðurmálinu. Skáldið persónugerir móðurmálið, sem birtist í líki konu - skáldgyðjunni - og guðsaugað, sólin, skín á hana og nærir eins og allt líf, og skáldið biður skáldgyðjuna að losa sig úr böndum svo að það geti ort, því að líf skáldsins liggi á vörum tungumálsins, og með því að yrkja losnar skáldið úr böndum og leysir með skáldskap sínum aðra úr viðjum og færir skáldinu þannig sælu að geta miðlað. Fyrsta erindi kvæðisins Ásta hljóðar þannig:
Ástkæra, ylhýra málið
og allri rödd fegra,
blíð sem að barni kvað móðir
á brjósti svanhvítu;
móðurmálið mitt góða,
hið mjúka og ríka,
orð áttu enn eins og forðum
mér yndið að veita.
Í kvæðinu Bragarbót frá árinu 1898 yrkir Matthías Jochumsson um móðurmálið, sem hann kallar guðamálið, og segir þar í einstakri andagift sinni og skáldlegri upphafningu:
Máli, sem hefur mátt að þola
meinin flest, er skyn má greina:
ís og hungur, eld og kulda,
áþján, nauðir, Svartadauða.
Málið fræga söngs og sögu
sýnu betra guðavíni -
mál er fyllir svimandi sælu
sál og æð, þótt hjartanum blæði.
...
Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elstu þjóðum,
heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði.
Matthías segir að tungumálið geymi sögu þjóðar í aldanna rás - í tímans straumi, enda er þetta einnig skoðun málvísindamanna samtímans: tungumál þjóða geymir sögu þeirra.
Hannes Pétursson hefur víða í öguðum ljóðum sínum velt fyrir sér orðunum. Í kvæðinu Orðin sem ég aldrei finn úr ljóðabókinni Í sumardölum frá árinu 1959 segir hann:
Ég veit þau búa einhvers staðar öll,
en aldrei finn ég þeirra myrka helli
og þótt ég leiti fram í efstu elli
um úfna vegi: tungunnar bröttu fjöll.
Ég veit þau finnast aldrei. Engum mönnum
þau orð ég flyt sem geymi huga minn:
þágu frá aldinkjöti sætleik sinn
og særðu herslu og styrk úr úlfsins tönnum.
Skáldið getur aldrei sagt það sem hugur hans geymir, orðin búa í myrkum helli og vegir tungunnar eru úfnir og fjöll hennar brött, en orðin hafi fengið mátt sinn úr ólíkum áttum, sætleika úr aldinkjöti og styrk úr tönnum úlfsins: orðin geta því bæði verið sæt og hörð.
Tryggvi Gíslason.