Í drögum að áliti nefndarinnar segir: „Við ákvörðun staðsetningar stofnunarinnar þarf að hafa í huga að umtalsverður hluti af áætlaðri starfsemi hennar er nú í höndum annarra stofnana og því telur nefndin að fara þurfi varlega í að færa störf milli landshluta þar sem hafa þurfi hagi núverandi starfsmanna í huga. Nefndin leggur þó áherslu á að Byggingarstofnun hafi hið minnsta eina starfsstöð úti á landi og að ný störf og stöður heyri undir þá stöð."
Í bókun stjórnar Eyþings segir ennfremur: Afstaða nefndarinnar er einkennandi fyrir það úrræðaleysi og metnaðarleysi sem einkennt hefur aðgerðir Alþingis á undanförnum árum í staðsetningu verkefna og starfa á vegum ríkisins. Miðað við afstöðu hennar má ætla að aldrei verði hægt að staðsetja nýja stofnun utan höfuðborgarsvæðisins þar sem gera verður ráð fyrir að ný stofnun taki alltaf til einhverra eldri verkefna. Umhyggja Alþingis hefur ekki birst með sama hætti þegar fólk hefur þurft að flytja í stórum stíl utan af landsbyggðinni vegna starfa sem þar hafa verið lögð niður, m.a. á vegum ríkisins.
Stjórn Eyþings skorar á umhverfisnefnd Alþingis að endurskoða afstöðu sína og leggja til að Byggingarstofnun verði valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Í stað þess að höfuðstöðvar verði á höfuðborgarsvæðinu og starfsstöð úti á landi eins og nefndin leggur til þá telur stjórnin sjálfsagt að snúa dæminu við. Höfuðstöðvar verði utan höfuðborgarsvæðisins en starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu en með því verði þörfum eldri starfsmanna mætt. Stjórn Eyþings ítrekar ábendingu sína um að Byggingarstofnun verði valinn staður á Akureyri.