Það verður botnbaráttuslagur á Akureyrarvelli í kvöld þegar Þór fær Njarðvík í heimsókn í 11. umferð 1. deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Fyrir leikinn er Njarðvík í neðsta sæti deildarinnar með sex stig en Þór hefur níu stig í níunda sæti. Páll Viðar Gíslason aðstoðarþjálfari Þórs segir að um sex stiga leik sé að ræða.
“Fólk talar sjálfsagt um leikinn sem botnbaráttuslag og það eru oft sagðir vera sex stiga leikir, sem þetta verður”. Hann segir mikilvægt að byrja að hala inn stigum í kvöld. “Þó þetta sé langt mót þá er ekki alltaf hægt að tala um að það sé nóg eftir og við verðum að fara að hirða stig, þannig að ég mæli helst með að við byrjum ekki seinna en í leiknum í kvöld að fara að næla okkur í stig,” segir Páll Viðar. Leikurinn hefst kl. 19:15.