Í bókun Eyþings segir m.a. að afstaða nefndarinnar til staðsetningar stofnunarinnar sé einkennandi fyrir úrræða- og metnaðarleysi sem einkennt hafi aðgerðir Alþingis á undanförnum árum í staðsetningu verkefna og starfa á vegum ríkisins. Ólöf segir að umhverfisnefnd hafi ekki tekið afstöðu í málinu, enn hafi ekki verið rætt um hugsanlega staðsetningu stofnunarinnar. Hún segir landsbyggðarþingmenn í nefndinni hafa horft út á landsbyggðina hvað staðsetningu varðar. Nefndin hafi hins vegar ekki afgreitt málið enn og það sé til umfjöllunar innan hennar. Ólöf segir ágætt að fá þrýsting líkt og fram komi í ályktun stjórnar Eyþings. "Ég er ánægð með að landsbyggðarfólk beiti sér í málinu og myndi þrýsting í þessa átt, þaðan verður hann að koma," segir hún.
Höskuldur Þórhallsson alþingismaður sem einnig á sæti í umhverfisnefnd segir það sína skoðun að Byggingarstofnun eigi að vera á Akureyri og það sé í raun eini staðurinn á landsbyggðinni þar sem hún geti verið, þ.e. umhverfið sé ákjósanlegt og hagstætt. "Ég hef hreyft þessu máli tvívegis innan nefndarinnar, bent á að best færi á því að koma stofnuninni fyrir á Akureyri, en því miður er þess ekki getið í nefndaráliti," segir hann en að vel hafi hins vegar verið tekið í hugmyndina innan nefndarinnar. "Ég mun taka þetta mál upp að nýju, við höfum ekki enn skilað endanlegu áliti," segir Höskuldur.