Bíladagar á Akureyri verða færðir til að ári

Kristján Þ. Kristinsson formaður Bílaklúbbs Akureyrar segir að rætt hafi verið um það á síðasta ári að færa Bíladagana til og að sú umræða hafi einnig verið viðruð í ár. "Þetta félag var stofnað til að halda lýðræðissýningu á 17. júní og hefur alla tíð gert það. Við höfum tengt þessa daga við þá helgi sem stendur þjóðhátíðardeginum næst," segir Kristján.  

"Við höfum fengið beiðni um að halda hátíðina helgina eftir þjóðhátíðardaginn á næsta ári. Við munum gera það, þar sem 17. júní er þá á miðvikdegi og mun hátíðinni okkar ljúka á laugardeginum helgina eftir." Kristjáni finnst fjölmiðlar almennt ekki hafa sýnt sjálfri hátíðinni mikinn áhuga í ár. Reynt hafi verið koma úrslitum til þeirra en það hafi ekki skilað miklum árangri. Mikið var hins vegar fjallað í fjölmiðlum um það ástand sem skapaðist í bænum þá daga sem Bíladagar og Aim tónlistarhátíðin stóðu yfir og jafnvel talað um stríðsástand. Kristján sagði að bílaklúbbsmenn væru ánægðir með hvernig til tókst með Bíladagana. Þeir viðburðir sem BA bauð upp á hafi verið vel sóttir og gestir verið til fyrirmyndar. "Það var ekki áberandi ölvun hjá okkur enda var mikil og ströng gæsla og fólki var ekki hleypt inn á viðburði með áfengi með sér," segir Kristján.

Mikill fjöldi fólks sótti hátíðina og segir Kristján að gestafjöldi í ár hafi verið svipaður og í fyrra. Hins vegar hafi aldrei fleiri gestir komið á bílasýningu klúbbsins og að þessu sinni. Kristján segir það slæmt hversu svartan blett hátíðin hafi fengið á sig vegna neikvæðrar umfjöllunar í fjölmiðlum. "Það er leiðinlegt að vera stimpla ákveðinn aldurshóp sem einhverja ólátabelgi. Keppendur okkar eru á öllum aldri og þeir eru allir til fyrirmyndar," sagði Kristján. Hann sagði jafnframt að allir þeir sem kæmu að málum þyrftu að leita leiða til að fyrirbyggja að upp kæmi það ófremdarástand sem ríkti í bænum á dögunum.

Nýjast