Baráttumaður fyrir málefnum fatlaðra flytur erindi

Fimmtudaginn 19. júní nk. mun Sjálfsbjörg á Akureyri í samstarfi við búsetudeild Akureyrar bjóða öllum sem áhuga hafa á erindi eins þekktasta baráttumanns fyrir málefnum fatlaðra í heiminum, Evalds Krog frá Danmörku.

Hann er formaður „Muskelsvindfonden" í Danmörku og er einn skeleggasti talsmaður neytendastýrðrar, einstaklingsmiðaðrar þjónustu við fatlaða sem miðar að því að þeir geti sem best nýtt sína hæfileika og áhugasvið. Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins á Íslandi, er einnig með í för og mun líka halda erindi. Dagskráin hefst kl. 14:00 og verður í salnum í Víðilundi 22 og ber yfirskriftina: Aðstoð heima eða stofnanavist. Það er sérstakt ánægjuefni Sjálfsbjargar á Akureyri að mega stuðla að slíkum viðburðum á 50 ára afmælisári sínu. Kynningar og fundarstjórn annast Bergur Þorri Benjamínsson.

Evald Krog, sem er lögfræðingur að mennt, er sennilega þekktasti baráttumaður Dana í málefnum fatlaðs fólks. Þrátt fyrir mikla fötlun er hann mjög virkur á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Árið 1993 átti hann mikinn þátt í því að sett voru lög um persónulega liðveislu sem gera fólki með mikla fötlun kleift að njóta allt að sólarhringsþjónustu á heimilum sínum og til virkrar samfélagsþátttöku. Þessi einstaklingsbundna þjónusta er veitt á forsendum hinna fötluðu en ekki bundin stofnunum eins og tíðkast hérlendis. Guðjón Sigurðsson er formaður félags MND. Hann er menntaður pípulagningameistari en starfar nú hjá Orkuveitu Reykjavíkur og sinnir launaútreikningum í dag.

Opinbera skilgreiningin á MND:

Motor Nourone Disease - í sumum löndum kallað ALS eða Amyotropic lateral scolerosis, einnig Lou Gehrig sjúkdómurinn - er banvænn sjúkdómur sem ágerist venjulega hratt og herjar á hreyfitaugar líkamans sem flytja boð til vöðvanna. Af honum leiðir máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni, hálsi o.s.fv. Að lokum er um algera lömun að ræða. Vitsmunalegur styrkur helst þó óskaddaður. Líftími sjúklinga eftir að þeir fá sjúkdóminn er frá 1 -6 ár en sumir lifa lengur. Talað er um að 10% geti lifað upp undir 10 ár. Á Íslandi eru á hverjum tíma 15-20 manns með MND. Á hverju ári greinast u.þ.b. 5 manns með MND. Ekki er vitað um orsök sjúkdómsins. Það er eitthvað sem veldur því að boð komast ekki á milli hreyfitaugafruma og vöðvinn svarar ekki því sem hugurinn vill. Hreyfitaugafrumurnar visna og deyja. Vegna hreyfingarleysis rýrna vöðvarnir. Mismunandi er hvernig sjúkdómsferlið er hjá fólki, hjá sumum byrjar sjúkdómurinn í taugum sem stjórna fótleggjum, hjá öðrum í taugum sem stjórna handleggjum og hjá enn öðrum byrjar hann í vöðvum sem stjórna öndun, kyngingu og tali. Sjúkdómurinn herjar á vöðva sem lúta viljastýrðum hreyfingum, þ.e.a.s. ekki vöðva eins og hjarta og önnur líffæri sem starfa óviljastýrt. Í mannslíkamanum eru ótal vöðvar og hefur hver og einn sitt hlutverk.

Nýjast