Bjarni segir að í fyrrasumar hefði staðið til að þökuleggja völl í hverfinu en það væri ekki búið enn. Fjármunir sem ætlaðir voru til verksins færðust ekki til á milli ára, en nú stendur til að sá í fyrirhugaðan völl, "þannig að hann verður ekki tilbúinn fyrr en í fyrsta lagi næsta sumar og á meðan hafa börn hér í hverfinu engan samastað til að hittast á," segir Bjarni. Tveir litlir leikvellir eru fyrir yngri börn, en enginn fyrir þau sem eru eldri en 6 ára. Bjarni segir börn í hverfinu sækja mismunandi grunnskóla og þekkist því jafnaldrar ekkert endilega og því brýnna en ella að þeir hafi sér samastað innan hverfis til að koma í veg fyrir félagslega einangrun. Framkvæmdadeild bæjarins var skrifað bréf og beðið um að útbúinn yrði völlur en því erindi var að sögn Bjarna hafnað. Þá var málið borið undir bæjarstjóra en að sögn Bjarna bar það heldur ekki árangur.
Hverfisnefnd Naustahverfis hélt aðalfund á dögunum og var vel mætt, kosin var ný nefnd en þeir þrír stjórnarmenn sem fyrir voru, þar á meðal Bjarni sitja áfram í stjórn. "Við reyndum að skipta með okkur verkum en það vill engin gegna formennsku, sjálfur er ég staðráðinn í að hætta," segir Bjarni.