Bæjarlífið fær óvenjulegan blæ í sumar

Fjöllistahópurinn "Skapandi sumarstörf" hefur í sumar sett skemmtilegan svip á bæjarlífið  á Akureyri. Starfið miðast við að hleypa nýju lífi í miðbæinn og kynna bæinn fyrir túristum sem heimsækja Akureyri í sumar auk þess sem þau munu taka á móti gestum skemmtiferðaskipanna sem leggja leið sína í bæinn í sumar.  

Jóhanna Vala Höskuldsdóttir, sem stýrir verkefninu, segir það hafa verið sett af stað að frumkvæði Akureyrarstofu og segir þetta í fyrsta skipti sem fjöllistahópur af þesu tagi sé á launum á Akureyri. "Það sem við erum að gera er að gera bæinn skemmtilegan og að hjálpa fólki að sjá skemmtilegu, jákvæðu og elskulegu hliðarnar á Akureyri, gera bæinn líflegri," segir Jóhanna Vala. Hún segir þemað hjá hópnum sé að snúa bænum á rönguna og sýna bæði túristum og Akureyringum alvöru Íslendinginn.

"Við höfum verið með listasýningu á Íslendingum á ýmsum skrýtnum stöðum alls staðar í bænum, við reynum að setja hlutina á staði sem eru óvenjulegir, t.d. strák að horfa á fótbolta í sjónvarpi á miðri göngugötunni." Spunasveitin, Gleðibomburnar, sem lenti í öðru sæti á Evrópumóti skólaliða í spuna í Austurríki í vor, er meðlimur í hópnum og segir Jóhanna Vala að stefnan sé að hafa "Gleðibombu spuna" alla fimmtudaga milli fjögur og sex. Hefðbundinn dagur hjá hópnum er þannig að allir hittast í sundi um klukkan sjö á morgnana til að gera sig kláran fyrir daginn. Svo eru hugmyndir dagsins bornar upp á yfirborðið og vegna þess hve hugmyndaríkir meðlimir hópsins eru getur reynst erfitt að velja og hafna. "Það er rosaleg orka í okkur, við erum eiginlega allt of hugmyndarík og þurfum að velja og hafna hugmyndum en það er bara skemmtilegt og við reynum að gera hlutina svolítið í samspili við umhverfið."

Þá er hópurinn að fara af stað með ástarþema og ætlar að fagna ást með bæjarbúum. "Við ætlum að sýna fram á það að ástin sé alls staðar," segir Jóhanna Vala að lokum. Hópurinn verður starfandi út sumarið og verður niðri í miðbæ milli fjögur og sex flesta daga eða þegar hópurinn er ekki að taka á móti gestum skemmtiferðaskipanna.

Nýjast