Bæjarfulltrúi gagnrýnir aukin hraðakstur og hávaða

Jóhannes Bjarnason bæjarfulltrúi á Akureyri segist mjög undrandi á viðbrögðum Daníels Guðjónssonar yfirlögregluþjóns við gagnrýni sinni þess efnis að umferðaröryggi í bænum sé minna nú er verið hefur.  

Daníel sagði í Vikudegi í síðustu viku að hann vissi ekki hvað Jóhannes ætti við og vísaði gagnrýni hans á bug. Daníel sagði að eftirlitið hefði ekkert minnkað, heldur þvert á móti hafi það verið aukið. "Ég get upplýst Daníel um það að ég fylgist með sívaxandi kappasktri á Þingvallastrætinu sem ég bý við. Ég er heldur ekki einn um að hafa gert athugasemdir við það, heldur heyrt um slíkt frá öðrum íbúum við götuna. Það er búið að vera hér stigvaxandi hraðakstur, kappakstur og spyrna á kraftmiklum bílum og mótorhjólum og maður hefur verið logandi hræddur á köflum. Því miður hefur ekki verið um aukið eftirlit lögreglu því samfara. Það er þetta sem ég á við sem dæmi," sagði Jóhannes.

Hann sagði að fjöldi fólks hafi komið að máli við sig og að reynti hafi verið að hafa samband við lögregluna en svörin þar hafi verið mjög sérstök á köflum. "Þess vegna var ég nú að leiða getum að því að lögreglan hefði ekki mannafla til að sinna þessu eftirliti betur. Hraðakstur hefur aukist í bænum, með tilheyrandi hávaðamengun og þá sérstaklega um helgar, enda hefur orðið mikil fjölgun bíla og mótorhjóla af öllum stærðum og gerðum. Þess vegna tók ég málið upp í framkvæmdaráði og það verður óskað eftir því að lögreglan komi og ræði umferðareftirlitsmál og leiðir til úrbóta," sagði Jóhannes.

Hann sagði að skömmu eftir að hann sendi erindi sitt til framkvæmdaráðs hefði ungur ökumaður verið tekinn á 108 km hraða fyrir utan hjá sér. Slík dæmi séu enn fleiri, "en því miður er lögreglan ekki mjög sjáanleg hérna, það verður að segjast alveg eins og er." Jóhannes sagði að ein leiðin í þessari baráttu gæti verið að koma fyrir myndavélum á ákveðnum svæðum.

Nýjast