Árangurinn verður mældur í brosum

Yfirskrift hátíðahalda á Akureyri um verslunarmannahelgina er: "Ein með öllu og allt undir" og verður fjölbreytt dagskrá í boði um allan bæ. Margrét Blöndal, framkvæmdastjóri hátíðahaldanna, segir að þemað sé elskulegheit og að árangurinn verði mældur í brosum.  

Margrét sagði að mjög jákvæð stemmning hafi verið í kringum verkefnið og allir tekið sér vel. "Það hugsa allir eins og allir sem koma að málum ætla að taka þetta á brosinu," segir Margrét. Hún segir markmiðið að sýna Akureyri eins og hún er en einnig verði litið til fortíðar. "Það verður ótrúlega mikið í gangi og hver hugmynd býr til aðra. Við sjáum ekki hvar þetta kemur til með að enda," sagði Margrét.

Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs tók undir með Margréti og sagði að vel hefði tekist til við að stilla upp dagskrá sem ætti að höfða til bæjarbúa, brottfluttra Akureyringa og annrra gesta. "Ég vona og trúi því að við munum sjá  hér hátíð sem við getum öll verið stolt af þegar upp verður staðið," sagði Hermann Jón.

Tjaldsvæði verða á þremur stöðum í bænum um verslunarmannahelgina. Skátarnir munu reka fjölskyldutjaldsvæði að Hömrum og við Þórunnarstræti en Íþróttafélagið Þór mun reka þriðja tjaldsvæðið á svæði sunnan við Norðurorku. Á tjaldsvæði Þórs verða rýmri útivistarreglur en reglur að öðru leyti þær sömu á öllum svæðunum. Ekki verður um hert aldurstakmörk að ræða og gestir undir 18 ára eru velkomnir í fylgd foreldra og forráðamanna.

Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu sagði að það væri ekki gott að þjóna fólki með mismunandi þarfir á sama svæðinu. "Hingað kemur líka fólk sem vill vaka meira og sofa minna. Felstir munu því velja sín tjaldsvæði sjálfir og reynslan mun sýna að það verður aldurskipting á þeim," sagði Þórgnýr.

Alla helgina verða fjölmargir viðburðir um allan bæ sem fólk getur notið. Meðal þess sem boðið verður upp á er Hlöðuball í Dynheimum, siglingar um Eyjafjörð með Húna II og hádegistónleikar í Lystigarðinum með teppi, nesti og huggulegheitum. Þá mun 80´s taka völdin í miðbænum í samstarfi við starfsfólk verslana og kaffihúsa. Þar verða herðapúðar og hárlakk í algleymingi og lögreglumenn á bæjarvakt munu klæðast búningum frá þessu tímabili. Dr. Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri útvarps á Rúv, ætlar svo að rifja upp Jane Fonda leikfimina sem hún kenndi á 9. áratugnum. Þá verða pylsur með rauðkáli og Vallash til sölu og alla helgina verða tónleikar og dansiböll af öllum gerðum.

Dagskránni líkur með lokatónleikum á Akureyrarvelli sem verða sérsniðnir stemningu helgarinnar en fram koma Guðrún Gunnarsdóttir, Pálmi Gunnarsson, Eurobandið, Sigga Beinteins og Bryndís Ásmundsdóttir ásamt danska Evróvisjónfaranum Simon Mathew. Dagskráin endar á lögum Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar sem hóf sinn tónlistarferil á Akureyri, fyrst í MA og svo með Hljómsveit Ingimars Eydal.

Dagskráin er í stöðugri þróun og er uppfærð á heimasíðunni http://www.einmedollu.is/

Nýjast