Alvarlegt mál inn á borð lögreglu

Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar

Á vef Framsýnar kemur fram að Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum haldi uppi öflugu vinnustaðaeftirliti sem hafi skilað góðum árangri fram að þessu, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Þar segir að ástandið sé almennt gott á félagssvæðinu en undantekningar finnist þó. Dæmi er um að bæði innlend og eins erlend fyrirtæki hafi ætlað sér að greiða laun undir lágmarkslaunum á Íslandi. Skarpur tók Aðalstein Á. Baldursson formann Framsýnar stéttarfélags tali og spurði út í ástandið og hvernig eftirlitið gangi á svæðinu.

Gullgrafaraæði

„Almennt séð eru hlutirnir að ganga ágætlega, þetta er hins vegar mikil vinna og gríðarlegt eftirlit. Við skiptum þessu í tvennt, annars vegar í kringum iðnaðaruppbygginguna á svæðinu og hins vegar ferða­ þjónustuna,“ segir hann og bætir við: „Ef við byrjum á ferðaþjónustunni, þá hefur hún gjörsamlega sprungið! Hér ætla margir að verða ríkir, menn eru að breyta öllu í gistingu, alls konar kofum og öðru. Það er svona gullgrafaraæði í gangi má segja,“ segir hann en leggur áherslu á að stór hluti fólks sé með alla sína hluti í lagi. „En svo eru alltaf einhverjir sem eru ekki með það í lagi. Þá höfum við þurft að beita okkur í því varðandi aðbúnað og launakjör starfsmanna og annað. Við erum með öflugt eftirlit í gangi og verðum með í allt sumar í samvinnu við lögreglu, Vinnumálastofnun, ríkisskattsjóra og Vinnueftirlitið“ segir Aðalsteinn.

Fyrirmyndar ferðaþjónusta

Hann segir að draumastaðan sé sú að allir séu með hlutina í lagi. „Draumurinn er líka sá að eftir því verði tekið að hér á svæðinu séu hlutirnir í lagi samanborið við aðra landshluta. Við höfum alla burði til þess að vera með fyrirmyndar ferða­ þjónustu, að hana verði að finna í þingeyjarsýslum,“ segir Aðalsteinn.

Eftirlitið hefur skilað sér vel, nú þegar hefur komist upp um 70-80 starfsmenn ef svo má að orði komast sem átti að borga langt fyrir neðan íslensk lágmarkskjör. „Í dag erum við að vinna með tvo aðila sem voru að borga langt undir lágmarkskjörum, en við erum búin að stoppa það í fæðingu. Við höfum sagt þeim að það verði ekki fleiri símtöl út af svona rugli – þeir eiga að borga að lágmarki, lágmarkslaun eins og þau eru á Íslandi - það kemur ekki til umræðu neitt annað,“ segir Aðalsteinn. Einhver brögð eru að því að íslenskir verktakar fái erlenda verktaka til að vinna fyrir sig og fyrra sig þannig ábyrgð. „Það er búið að segja við þessa aðila að láta sér ekki detta þetta í hug við tökum ykkur bara strax. Ég átti fund með þeim á föstudag og þeir svöruðu því að þeir ætla að laga þetta og láta hlutina vera í lagi,” segir hann.

Fá reglulega hótanir

Mál hins fyrirtækisins sem verið er að gera athugasemdir við er hins vegar komið á annað stig. Þar hafa starfsmenn verið að vinna mikið og fá greitt 150160 þúsund, fast á mánuði. „Sú vinna er ekki búin, þetta mál er af þeirri stærðargráðu að við erum búin að gera lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu viðvart af því að fyrirtækið er starfandi þar. Eins er búið að hafa samband við Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóra. Við höfum óskað eftir því að þessar stofnanir komi að málinu með okkur og viti allt um þetta. Við teljum þetta mál það alvarlegt að nauðsynlegt sé að færa það á annað stig,“ segir Aðalsteinn. Aðspurður um hvort hér sé á ferðinni mannsalsmál svarar hann: „Við erum ekki farin að kalla þettta mansal, nei.“ En upplýsir að fyrirtækið sem um ræðir hafi verið að halda eftir launum starfsmanna og þess vegna væri málið komið inn á borð lögreglu. „Eins hafa menn orðið uppvísir að því að borga fólki sínu þannig; að þeim eru réttir peningar bara svona rétt eftir þörfum til að gera þá háða vinnuveitandanum,“ segir hann og játar að það sé búið að vera mikið aksjón og læti það sem af er eftirlitinu. „Við fáum alls konar hótanir inn á borð til okkar,“ segir Aðalsteinn. Aðspurður hvort um sé að ræða hótanir um líkamsmeiðingar eða þaðan af verra vill hann ekki svara beinum hætti en segir: „Það er svona eitthvað ljótt skulum við segja.“ /epe.

Greinin birtist fyrst í Skarpi 30. júní

Nýjast