Tjónið af völdum eldsvoðans í Myndlistarskólanum gæti verið á milli 55 og 60 milljónir. Tjón á húsinu sjálfu mun nema um 30 milljónum króna og tjón á innbúi, búnaði og bókum hvers konar nemur um 25-30 milljónum að því er fram kom í viðtali við Helga Vilberg skólastjóra skólans á RÚV fyrir stundu. Nú er verið að vinna við að rífa ónýtar innréttingar úr skólanum.
Í samtali við Vikudag fyrir helgina sagði Helgi m.a.: "Það er bæði mikið tjón á húsinu sjálfu og munum skólans, það er eiginlega allt ónýtt, og það er sérstaklega sótið og lyktin sem eru erfið viðureignar og það er dýrt að hreinsa slíkt." Helgi segir að listaverk eftir bæði innlenda og erlenda listamenn hafi brunnið og það sé sárt að horfa eftir því. Þarna hafi farið 34 ára saga á einu bretti.
"Skaðinn er mikill, 34 ár farin á einni stundu og mikill kostnaður við að koma þessu af stað aftur." Helgi segir þó að menn séu langt frá því að leggja árar í bát og stefnt sé að því að koma skólanum í lag fyrir haustið og koma tvíefldir til baka. "Ég og húseigandinn ákváðum það strax að núna skyldum við láta hendur standa fram úr ermum og settum okkur það markmið að klára uppbygginguna fyrir 8. september. Iðnaðarmennirnir eru byrjaðir að hreinsa til í húsinu og það er heilmikið farið að gerast," segir Helgi.