Við skólaslit munu fulltrúar nokkurra afmælisárganga flytja skólanum ávörp. Í hópi þeirra er Ármann Snævarr, fyrrverandi háskólarektor, en sjötíu ár eru frá því hann lauk stúdentsprófi frá skólanum. Skólahátíð MA er gríðarlega fjölmenn hátíð sem setur mikinn svip á bæjarlífið á Akureyri dagana í kringum 17. júní ár hvert. Til bæjarins koma gamlir nemendur skólans og fagna tímamótum sem standa á heilum og hálfum tug ára frá því þeir luku stúdentsprófi. MA-hátíðin er mesti samfagnaður afmælisárganganna og er haldinn að kvöldi 16. júní í Höllinni, en dagana á undan eru flestir hóparnir í alls kyns kynnisferðum og fögnuði í bænum og nágrenni hans. Gestir á MA-hátíð eru jafnan á bilinu 700-900.
Við skólaslitaathöfnina að morgni 17. júní eru jafnan um 1000 manns, ættingjar og vinir nýstúdenta og aðrir hollvinir skólans. Að kvöldi 17. júní er hátíðarsamkoma nýstúdenta í Höllinni þar sem saman koma um 1000 manns, nýstúdentar, fjölskyldur þeirra og vinir og kennarar og starfsfólk skólans. Bæði þar og á MA-hátíðinni kvöldið áður mun hljómsveitin Í svörtum fötum leika fyrir dansi.
Að lokinni brautskráningu er hefð að teknar séu hópmyndir af nýstúdentum í trjálundi norðan við Hóla. Klukkan 15-17 er svo Opið hús í Menntaskólanum, þar sem boðið er upp á léttar veitingar. Þar eru sýnd ýmis verk nemenda, bæði námsverkefni og myndlistarverkefni. Þá er á Suðurvistum í Gamla skóla opin sýning gamalla muna og kennslutækja.