Akureyrarhlaup KEA fer fram næstkomandi laugardag þann 21. júní. Hlaupið hefur verið haldið frá árinu 1992 og er þetta því í 16. skiptið sem hlaupið fer fram. UFA hefur séð um að halda hlaupið en í fyrra gerði það þriggja ára samning við KEA um að vera aðalstyrktaraðili hlaupsins. Það verður byrjað og endað á Ráðhústorginu og verða fjórar vegalengdir í boði, 21, 1 km sem er hálft maraþon, 10 km hlaup með tímatöku og þriggja og fimm km hlaup án tímatöku. Keppnin í 21, 1 km hlaupinu hefst kl. 10:00 en aðrar vegalengdir fara af stað kl. 11:00.
Hlaupadrottningin Rannveig Oddsdóttir á von á fjölda manns í hlaupinu. “Það hafa verið um 300 keppendur í heildina undanfarin ár og það er búist við svipuðum fjölda í ár,” sagði Rannveig. Íslendingar eru í miklum meirihluta í hlaupinu og þá er einnig búist við fjölda keppenda allstaðar að af landinu. “Þetta eru svona 99 prósent Íslendingar sem taka þátt, svo hefur komið slatti af fólki allstaðar að af landinu síðustu ár og þá sérstaklega til að hlaupa lengri hlaupin og við búumst við því líka í ár, svo eru mest heimamenn í styttri hlaupunum,”sagði Rannveig.