Þegar Jón Hafsteinn Einarsson frá Álftanesi fór að velta fyrir sér námi á sviði verkfræði var hann með margar hugmyndir í kollinum. Vélaverkfræði? Raforkuverkfræði? Ekkert virtist smella alveg – fyrr en hann rak augun í auglýsingu um iðnaðar- og orkutæknifræði. Námið fer fram í staðnámi við Háskólann á Akureyri í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. Stúdentar í iðnaðar- og orkutæknifræði horfa á fyrirlestra í beinu streymi í HA á sama tíma og kennslan fer fram í HR. Aðstoðarkennari sér um dæmatíma í HA og stúdentar hafa góða aðstöðu til náms í HA og eru fullgildir HA-ingar sem tilheyra öflugu námssamfélagi háskólans
„Þegar ég fór að skoða námskeiðin sá ég að þetta var nákvæmlega blandan af því sem mig langaði í,“ segir Jón. „Ég sá líka að þetta nám myndi gefa mér lögverndað starfsheiti tæknifræðings á þremur og hálfu ári – og þá varð þetta bara alveg augljóst.“
Námið í iðnaðar- og orkutæknifræði er krefjandi raungreinanám með skýra tengingu við atvinnulífið. Það hentar fólki einstaklega vel sem vill öðlast verklega reynslu samhliða fræðilegri þekkingu og hefur áhuga á að vinna með raunveruleg verkefni – stundum í samstarfi við fyrirtæki.
Stúdentar hanna og smíða hluti frá grunni og fást við raunveruleg tæknileg viðfangsefni. Námið er sveigjanlegt að vissu marki – með valnámskeiðum, starfsnámi og lokaverkefnum sem hægt er að sníða að eigin áhugasviði. „Við höfum frábært aðgengi að tækjum og tólum, hvort sem það eru 3D prentarar eða róbotar – og Óli, verkefnastjórinn okkar í HA er alveg einstakur og það þarf aldrei að hafa áhyggjur af neinu þegar hann er á staðnum,“ segir Jón og bætir við að traustið sem stúdentum er sýnt sé ótrúlegt.
Jón lýsir HA sem stað þar sem andrúmsloftið og aðstaðan spila stórt hlutverk í upplifun stúdenta af náminu. Uppáhaldsstaður hans í skólanum eru kennslustofurnar – og það besta við það að vera „HA-ingur“ eru samnemendur og umhverfið sjálft. „Það myndast ótrúlega góð stemning, sérstaklega á viðburðum eins og Sprellmótinu – sem öll verða að mæta á áður en þau útskrifast!“
Þriggja vikna námskeiðin sem brjóta misserin upp eru í sérstöku uppáhaldi hjá Jóni. „Þau eru ótrúlega skemmtileg og gefa okkur tækifæri til að setja bóklega þekkingu í hagnýtt samhengi.“
Aðspurður hvað hann myndi segja við einhvern sem er að íhuga að sækja um námið, svarar Jón: „Drífa sig í því – ég mæli hiklaust með þessu námi og Akureyri í heild, það tekur enga stund að kynnast fólkinu hér.“ Aðspurður segir Jón að uppáhaldsstaðurinn hans á Akureyri sé háskólinn en hann segir það að skella sér á skíði í Hlíðarfjalli sé líka alveg frábært.
Þann 27. maí verður haldinn kynningarfundur um bæði tölvunar- og tæknifræði í stofu M101 kl. 16:30 og einnig í streymi á Zoom.
Hægt er að finna alla viðburði hjá Háskólanum á Akureyri á unak.is undir „Samfélagið“, viðburðadagatal og einnig á Facebook síðu Háskólans á Akureyri.