„Einfaldlega mjög venjulegt að vera hinsegin í dag“

Aðalbjörn í pontu ásamt fyrstu stjórn Hinseginfélags Þingeyinga. Mynd/epe
Aðalbjörn í pontu ásamt fyrstu stjórn Hinseginfélags Þingeyinga. Mynd/epe

Aðalbjörn

Nýverið var haldinn stofnfundur Hinseginfélags Þingeyinga í sal Framsýnar á Húsavík. Fundurinn var gríðarlega vel sóttur og eru stofnfélagar yfir 60 talsins. Aðalbjörn Jóhannsson kom að stofnun félagsins og situr í fyrstu stjórn þess. Vikublaðið ræddi við hann um tilurð félagsins og hinsegin veruleikann.

Aðalbjörn var enn í skýjunum yfir góðum viðtökum við félaginu þegar blaðamaður ræddi við hann og segir þær hafa farið fram úr öllum væntingum.

Met miðað við höfðatölu

„Við gerðum kannski ráð fyrir því að við næðum á bilinu 10-12 manns en það voru um 60 sem mættu á fundinn og skráðu sig í félagið. Ég held að þetta hljóti að vera met eða a.m.k. mjög gott fyrir félag af þessu tagi miðað við höfðatölu og allt það,“ segir hann og bætir við að þetta sé ekki fyrsta hinsegin félagið sem hann kemur að því að stofna. Aðalbjörn kom nefnilega að stofnun félagsins Hinsegin Norðurlands á sínum tíma.  

„Það er alveg ljóst að það er öðruvísi meðbyr að þessu sinni. Við erum að sjá mjög breiðan hóp sem kemur að þessu, mætti á fundinn og hefur verið í sambandi við okkur eftir á. Það voru ekki aðeins fundagestir sem skráðu sig í félagið heldur höfum við fengið fleiri skráningar í gegnum skilaboð og tölvupósta, alls staðar að úr þingeyjarsýslum og víðar,“ segir Aðalbjörn hróðugur.

Sýnileiki að aukast  

Hann segir alveg ljóst að mikill áhugi sé á félaginu miðað við þessi viðbrögð og það sem ekki síst vekur ánægju sé fjölbreytni hópsins.  „Þetta er alls ekki bara fólk sem skilgreinir sig sem hinsegin sem skráði sig í félagið. Það endurspeglar svolítið þá umræðu sem kom okkur af stað í þessa vegferð. Að það eru ekki bara við hinsegin fólk sem erum að velta þessum hlutum fyrir okkur heldur höfum við verið að fá talsvert af samtölum við kennara, foreldra og fleiri. Hinsegin málefnin eru komin á þann stað að fólki langar til að skilja betur en það vantar aðeins upp á fræðsluna. Fólk veit ekki alltaf hvert á að snúa sér,“ útskýrir Aðalbjörn og tekur fram að hann sé að sjá fjölgun hjá þeim sem eru að koma út sem hinsegin og sýnileikinn er sífellt meiri. Hann segist jafnframt sjá þessa þróun meðal barna og ungmenna en hann starfar sem tómstunda- og æskulýðsfulltrúi í  Þingeyjarsveit og hefur því góða yfirsýn.

„Þetta er finnst mér alltaf að verða hærra og hærra hlutfall, það er mín reynsla af því að starfa með börnum og ungmennum. Svo er það líka fullorðið fólk, að uppgötva að þetta sé yfir höfuð hægt, að koma út. Maður er að heyra meira frá fólki sem vill finna vettvang til að spjalla og finna betur út úr því hverju það tilheyrir. Þetta er fjölbreyttara samfélag en var í umræðunni fyrir. Þessu fylgir spurningar og fólk er að velta þessum hlutum fyrir sér. Þá er nauðsynlegt að hafa vettvang eins og þetta félag þar sem fólk hefur betra aðgengi að fólki með svipaða reynslu.“

Bakslag í viðhorfum

Undanfarið hefur verið áberandi umræða í fjölmiðlum og víðar um að það sé komið bakslag í baráttu hinsegin fólks þar sem óheilbrigð viðhorf og skoðanir hafa verið að gera vart við sig upp á síðkastið. Fordómar, hatursorðræða og jafnvel hatursglæpir gagnvart hinsegin fólki. Aðalbjörn tekur undir þetta og segir aukin sýnileika mögulega kalla á ýktari viðbrögð frá þröngum hópi fólks. „Sýnileikinn er orðinn miklu meiri, því fylgir að einhverjum finnst vera ógn af okkur, að við ógnum þeirra veruleika og heimsýn. Þá verða þessar öfgar líka sjáanlegri. Fólk er að finna alls konar rökvillur til að reyna sjálft að tilheyra hópi sem er svo ekki endilega til sem slíkur,“ segir hann en tekur fram að hann telji þó að meðbyrinn sé mun meiri en mótbyrinn.  

„Það er mín tilfinning að meðbyrinn er orðinn miklu meiri en þegar ég var að koma út á sínum tíma. Það þýðir kannski að mótbyrinn, hvar sem hann er, verður ef til vill sterkari líka. Það er þó alveg ljóst að við finnum fyrir meðbyr frá miklum meirihluta fólks.“

Hinsegin félag

Aðalbjörn segir að það megi þó ekki horfa fram hjá því að aukin hatursorðræða sé staðreynd, þó að hún komi frá fámennum minnihluta. „Ég veit að það er að koma fyrir að hinsegin fólki er ógnað og við finnum ekki alltaf fyrir öryggi á öllum tímum. Við erum mjög meðvituð um það að það þarf ekki nema einn vitleysing til að ógna öryggi okkar og þeir eru mjög fljótir að finna sér ákveðna hópa úti í löndum þar sem þeir finna réttlætingu fyrir gjörðum sínum og skoðunum,“ segir hann og vekur athygli á því að Samtökin 78 hafi verið að tala um þessa auknu hatursorðræðu og hatursglæpi gagnvart hinsegin börnum og ungmennum.  Samtökin hafa bent á mjög alvarlega líðan hinsegin barna á Íslandi í dag. Hún hefur ekki farið batnandi öfugt við það sem maður hefði kannski haldið.“

Brúðkaupið varð pólitískt

Sjálfur hefur Arinbjörn upplifað að gleðistundir í lífi hans hafi breyst í pólitískan viðburð vegna hinseginleika hans. Skemmst er að minnast skotárásarinnar í Osló í sumar þegar ráðist var að fólki á hinsegin skemmtistað í höfuðborg Noregs með skelfilegum afleiðingum. Þegar árásinn átti sér stað var vika í brúðkaup Aðalbjarnar og eiginmanns hans og voðaverkið setti sinn svip á undirbúninginn.

„Brúðkaupið sem átti bara að vera dagur hamingjunnar með gleðitárum var allt í einu orðinn að pólitískum viðburði,“ segir Aðalbjörn og kveðst hafa upplifað nálægðina af árásinni.  Ég bjó í Osló og hef farið á þennan stað þar sem árásin átti sér stað Þarna var bara samfélagið, samfélag sem maður tengir við sjálfur og maður kemst ekki miklu nær íslensku samfélagi en þetta. Þetta var bara árás á allt samfélagið,“  segir hann en tekur fram að brúðkaupsdagurinn hafi að sjálfsögðu verið dásamlegur og fullur gleði.

 Félagslegt misrétti

Þó Aðalbjörn segist að miklu leiti vera ánægður með stöðu hinsegin fólks á Íslandi þá sé ýmislegt óunnið. Reglulega finni hann fyrir bakslagi en allt mótlæti blási honum baráttuanda. „Ég viðurkenni að það kemur upp í manni ákveðinn svona mótmæla eða baráttu andi. Ég veit að ég er giftur manni og það takmarkar ákveðna hluti. Ég fer ekki hvert sem er í heiminum. Það eru til staðir þar sem við erum ekki velkomnir,“ segir hann og bendir á að það sé varasamt að rugla saman lagalegum – og félagslegum réttindum.   

„Munurinn á lagalegum réttindum og félagslegum réttindum, hvar stöndum við þar? Við þurfum ekki að fara lengra en að kynhneigðarbundnum launamun. Hinsegin karlar koma töluvert verr út í samanburði við gagnkynhneigða kynbræður sína. Og í raun og veru í samanburði við konur líka. Þegar þetta birtist manni svona svart á hvítu þá veltir maður fyrir sér hvar þessi munur liggur, hver er ástæðan?“

Aðalbjörn stendur á þrítugu og segir ýmislegt hafa breyst frá því hann kom út sem samkynhneigður á unglingsárunum. „Kynslóðin á undan mér var búin að vera í baráttu í svo mörg ár og mín upplifun var að andinn yfir henni væri sá að allt væri svo erfitt. Það var svo mikil barátta fyrir því einfaldlega að vera til. Þannig að ég fann að þessi lagalega barátta átti ekki jafn mikið við mig. Það var svo mikil áhersla á það þegar ég var að alast upp að skilgreina sig til að passa einhvers staðar inn. Í dag eru krakkar miklu tilbúnari til að gefa sér tíma til að vera meira flæðandi. Það er sérstakt að vera þarna á milli, að vera í þessari hörðu baráttu fyrir því að fá að skilgreina sig yfir í að rýmið er til staðar og krakkar í dag gefa sér meiri tíma til að skoða málið,“ útskýrir Aðalbjörn.

Gott að vera hinsegin úti á landi

Þá segir Aðalbjörn að það sé gott að vera hinsegin í fámenninu úti á landi, öfugt við það sem mörg virðast halda. „Ég segi það og stend við það að ég lifi mínu besta lífi úti á landi. Mér finnst auðveldra að vera hinsegin úti á landi, af því að hér verður samkynhneigðin bara eitt einkenni en ekki höfuð einkenni á meðan ég upplifi það í Reykjavík og þessum stærri samfélögum, jafnvel á Akureyri. Þar verður þetta soltið stórt höfuð einkenni. Það er samt þessi tilfinning að tilheyra. Ég held að engin geti mótmælt því að það er erfiðara að detta inn í normatívan veruleika sem hinsegin karl eða hinsegin kona. Það er einhver veggur. Ég held að við setjum hann stundum sjálf upp,“ segir hann og veltir fyrir sér ástæðunni fyrir þessari fyrirstöðu,- hvort hún geti komið út frá fyrirmyndunum.

„Það sem ég ræði stunum við krakkana sem ég er að vinna með er að okkar helstu fyrirmyndir eru úr miðlum eins sjónvarpi og samfélagsmiðlum, þá er birtist þetta oft sem svo mikið ströggl. Við myndum einhverja svona fordóma sjálf, bæði gagnvart okkur sjálfum og samfélaginu. Þeir standast ekkert alltaf skoðun, en samt er nægilega mikið af þáttum sem standa að manni að maður staðfestir fordómana fyrir sjálfum sér. Það vantar meira af jákvæðum hinsegin fyrirmyndum þar sem viðkomandi er einstaklingur sem  aðalpersóna og hinsegin og það er ekki neitt vesen. Það er hluti af því að við ákváðum að stofna þessi samtök, til að auka á þennan jákvæða sýnileika. Við deilum ykkar veruleika, höfum gengið í gegnum hann sjálf en erum samt hamingjusöm, erum gift, við elskum, stundum vinnu og eigum fjölskyldu og vini og tökum þátt í samfélaginu eins og allir aðrir. Við viljum sýna að þetta er veruleikin líka, að það sé einfaldlega mjög venjulegt að vera hinsegin í dag,“

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast