11.desember - 18.desember - Tbl 50
Sálfræðingur með merkan feril í Fantasy Premier League að baki
Vísindafólkið okkar — Árni Gunnar Ásgeirsson
Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Árni Gunnar Ásgeirsson, deildarforseti Sálfræðideildar, er vísindamanneskjan í október.
Akureyri - Hnífsdalur - Kaupmannahöfn - Leiden - Akureyri
Árni Gunnar hefur komið víða við. Hann ólst upp á Ísafirði, Hnífsdal, Kópavogi og Odense og flutti fyrst í höfuðborg norðursins árið 1993 þar sem hann fæddist. Árni Gunnar kláraði stúdentspróf við Verkmenntaskólann á Akureyri, lærði sálfræði við Háskóla Íslands og fór í doktorsnám við Kaupmannahafnarháskóla haustið 2010. Að doktorsnámi loknu flutti hann til Leiden í Hollandi þar sem hann sinnti rannsóknum sem nýdoktor við Leiden háskóla.
Leiðin lá aftur til Akureyrar árið 2017 þegar hann tók við starfi við Háskólann á Akureyri. Árni Gunnar hefur samþætt að vissu leyti rannsóknir og áhugasvið þar sem hann hefur áhuga á óvenjulegri skynupplifun. Í rannsóknum sínum skoðar hann hvernig og hvert við beinum athygli, hvernig við geymum það sem við sjáum í minninu og hvernig þessi ferill verður fyrir áhrifum af ýmsu í ytra umhverfi. „Ég byrjaði í námi í bókmenntafræði en varð fljótt órótt við að túlka skáldskap út frá póstmódernískum hugmyndum. Nú eyði ég mestum tíma kennslunnar í að kenna andstæðu þessara hugmynda,“ segir Árni Gunnar um hvernig val á námi endaði í sálfræði.
Ef þú finnur hann ekki við rannsóknir eða vinnu er afar líklegt að hann finnist á einhvers konar hreyfingu þar sem önnur áhugamál eru meðal annars að renna sér á snjóbretti, hjóla og nýlega fór hann að berja fjaðurbolta. „Ég myndi segja að flest af þessu sé framkvæmt með takmörkuðum árangri þó svo að ég hafi náð nokkuð góðum tökum á reiðhjólinu. Áhugi minn á hreyfingu takmarkast þó ekki við mína eigin hreyfingu því ég er mikill fótboltaaðdáandi og ver óhóflega miklum tíma í að dást að knattleikni oflaunaðra útlendinga. Þá er vert að minnast á að ég stjórnaði besta ímyndaða liðinu í Fantasy Premier League í nóvember 2015, en lagði reyndar ímynduðu fótboltaskóna á hilluna stuttu síðar,“ segir Árni aðspurður um áhugamálin.
Árni Gunnar á brettinu á St. Anton am Arlberg, Austurríki árið 2023
Hægt að vinna með mörg verkefni samfélagsins í gegnum sjónskynjun
Árni Gunnar fæst mikið við kennslu og segir helstu áskorunina við að sannfæra stúdenta um að þeir þurfi að taka virkan þátt í náminu. „Ég kenni meðal annars skynjunarsálfræði og hugfræði. Skemmtilegast finnst mér þó að kenna tilraunasálfræði og tölfræði þar sem stúdentum eru rétt verkfæri til að svara spurningum um umheiminn með vísindalegri aðferð. Þegar þeir hafa tileinkað sér aðferðina og hugsunina þá eru þeim flestir vegir færir.”
„Að mínu mati er helsta áskorunin í kennslu að sannfæra stúdenta um að þeir þurfi að taka virkan þátt í náminu með opinni samræðu og að þeir þurfi að gera tilraunir og mistök með eigin hugsanir og hugmyndir. Þannig tileinka þau sér námsefnið til lengri tíma og öðlast sjálfstraust til að nýta þekkingu sína,“ bætir Árni Gunnar við.
Árni Gunnar segir frá því að á hans sérsviði, sem er hugfræði og taugavísindi skynjunar, sé mikið óunnið verk í tengslum við verkefni samfélagsins, svo sem í vinnu og námi, og hvernig við vinnum úr upplýsingum. Það sem er mikilvægast er að skilja hvað skerðir skynjun og rekja má til heilans. Þetta geta verið vissar gerðir lestrarörðugleika, andlitsblinda, heilatengd sjónskerðing eða blinda svo eitthvað sé nefnt. „Það er vinsælt í dag að tala um framleiðni og ýmsa þætti tengda henni. Með því að skilja betur hvernig heilinn móttekur upplýsingar og hvað hamlar því gætum við sniðið vinnu- og stafrænt umhverfi okkar betur að eigin takmörkunum og möguleikum. Með því gætum við líklega dregið verulega úr streitu og viðhaldið framleiðni,“ segir Árni Gunnar um möguleikana sem felast á hans sérsviði og bætir við: „Framfarir á því sviði gætu reynst gríðarlega mikilvægar þeim sem búa við einhvers konar áskoranir á borð við ADHD, lesblindu, eða sértæka námsörðugleika og þannig samfélaginu í heild.“
Árna Gunnari er greinilega umhugað um vísindalegar aðferðir í flestöllu og aðspurður um uppáhaldslag þá segir hann að hlutlægi mælikvarðinn, spilunartölur á streymisveitum, bendi til þess að það sé Let it go úr kvikmyndinni Frozen en bætir við að lokum: „Ef ég svara þessari spurningu samkvæmt huglægu mati þá er uppáhaldslagið síbreytilegt en ég tengi gleði unglingsáranna á Akureyri við Common people með Pulp.“
Árni Gunnar með tveim af börnunum sínum, Unni Eddu og Frosta árið 2024 við Attersee, Austurríki