„Mamma og pabbi, ég ætlaði að drepa mig“

Stefán Jón Pétursson.
Stefán Jón Pétursson.

Mig hefur lengi langað að segja ykkur sögu mína, ekki af því hún sé gríðarlega merkileg á neinn hátt eða merkilegri en sögur annarra, heldur til að hjálpa mér að komast yfir fortíð mína. Við lifum í samfélagi í dag þar sem hæsta sjálfsvígshlutfallið er einmitt hjá þeim aldurshópi  sem ég tilheyri, ungum  karlmönnum,  því jú, við erum lokaðir. Þessi saga segir hvernig ég upplifði  hluti mína og æsku.

Leikskólinn

 

Leikskóli er saklaus staður þar sem börn frá 18 mánaða aldri fá að þroskast og leika sér fram að 6 ára aldri. Þetta er sagður svo mikilvægur aldur og mikilvægur tími í lífi barns til að geta þroskast. Á sama tíma er hann mjög viðkvæmur  þar sem hvert atvik getur skorið djúpt  inn í sál barns.  Þetta er kannski sá tími sem ég man minnst eftir en þó man ég vissa hluti. Ég man eftir því að ég var bara venjulegur strákur sem gekk í leikskóla eins og öll börn á sama aldri. Ég lék mér við krakkana og ætlaði að nota mér þennan tíma til að þroskast. En þarna byrjaði þetta allt saman, þá var ég 4-5 ára gamall. Ég veit ekki ástæðu þess að ég var tekinn fyrir, hvort það var út af því ég var í vitlausri ætt eða hvort ég hafi bara verið svona leiðinlegur.  Á þessum tíma var farið að saka mig um eitthvað sem ég gerði ekki og af einhverjum  ástæðum var ég sagður  hafa gert þessa hluti.  Af þeim sökum var ég oft skammaður fyrir hluti sem ég gerði ekki. Þetta hljómar saklaust en þetta gerðist aftur og aftur og ég var farinn að halda að hlutirnir væru mér að kenna þó svo að ég hafi hvergi komið nálægt þeim. Þetta hafði mikil áhrif á mig að því leiti að ég upplifði að ég hefði ekkert traust. Sama hvað ég gerði eða gerði ekki, ég yrði alltaf sakaður um þá hvort eð er. Enn þann dag í dag situr þetta í mér.

 

Næsta skref, grunnskólinn

 

Ég var eiginlega öllum stundum með æskuvini mínum. Hann, eins og ég, lenti í klónum á þeim, alveg frá leikskóla. Þessi æskuvinur minn var því mikil stoð fyrir mig í þessu öllu en auðvitað var erfitt að hafa hann sem stoð þar sem hann lenti í nákvæmlega því sama og ég. En eftir leikskólann kom grunnskólinn. Þegar þangað kom skánaði þetta ekkert. Þar var þetta ekki lengur eins „saklaust“ og í leikskóla. Í grunnskólanum var farið að segja við mig allt sem þeim datt í hug. Ég man alltaf eftir mikilli hræðslu gagnvart eldri krökkunum. Ég var alltaf hræddur við að ganga um í skólanum því ég óttaðist að einhver biði eftir mér. Óttinn við að einhver biði eftir mér, óttinn við það sem þau myndu segja næst, því þetta var ekki spurning um hvort heldur hvenær.  Svona gekk þetta fyrir sig hvern einasta dag sem ég man eftir í þessum skóla.

 

Leiddist út í rugl

 

Eitt sumarið fór vinur minn nokkrum sinnum til Reykjavíkur og eftir hvert skipti sem hann fór breyttist hann. Hann fór að reykja, stela og vinna skemmdarverk. Allt önnur persóna en ég hafði kynnst. Þrátt fyrir það fylgdi ég honum, ég byrjaði að reykja. Þótt það byrjaði smátt, þá jókst það með tímanum. Við fórum að stela úr búðinni og ég veit ekki hversu margir þúsundkallar af verðmætum hafa farið í vasa okkar úr þessari búð. Við vorum farnir að valda skemmdarverkum og náði það hæstu hæðum þegar vinur minn kveikti í bíl. Ég var farinn að drekka, þótt það væri aldrei svo mikið. Þegar hins vegar vinur minn kveikti í bílnum áttaði ég mig á því að þetta væri eitthvað sem ég vidi ekki gera, þetta væri ekki ég.

 

4. bekkur

 

Þessi bekkur er mér minnisstæður. Mig langaði ekki lengur að gera þá hluti sem ég gerði með vini mínum. Ekki gat ég breytt honum svo ég ákvað að reyna að fjarlægjast hann. Það var svo erfitt og reyndi svo mikið á mig þar sem við höfðum verið saman hvern einasta dag síðan við vorum pínulitlir strákar. Mér fannst ég ekki þekkja hann lengur og mér fannst ég ekki þekkja mig lengur. Þetta var eini vinur minn sem ég gat kallað æskuvin minn. Þetta ár varð ég fyrir auknu áreiti, langmest frá eldri krökkum.  Erfitt var að þurfa að takast einn á við þetta þar sem við höfðum alltaf verið tveir. Við gátum alltaf staðið saman. Þetta ár má segja að hafi verið byrjunin á því tímabili sem ég vildi ekki lifa lengur. Tíu ára strákur og strax farinn að hugsa um að mig langaði að svipta mig lífi. Svona gekk þetta næstu árin.

 

Frímínúturnar minnisstæðu

 

Frímínúturnar voru ekki svo skemmtilegur tími en auðvitað var maður skyldugur að fara í þær.  Oft voru ekki skólaliðar með okkur til að sjá til þess að allt væri með felldu. Það gat því margt miður gott gerst. Einu sinni var mér skellt á svell þannig að hausinn skall í ísnum, með þeim afleiðingum að ég þurfti að fara heim. Orðin sem þau sögðu við mig í frímínútunum voru ekkert betri en inni í skóla. Einar frímínútur eru mér sérstaklega minnisstæðar. Við hliðina á skólanum var sparkvöllur og vorum við mikið þar því þannig séð var ekkert betra við að vera. Þar sem við flest æfðum fótbolta spiluðum við oftast þær stöður sem við æfðum. Ég æfði mark á þessum tíma og var því oftast í marki.

Liðsskiptingin var oftast eldri á móti yngri og spilaði ég því alltaf á móti eldri  krökkunum.  Þessar tilteknu frímínútur gengu fyrir sig sem fyrr, almenn leiðindi og þess háttar, en þegar um það bil 2 mínútur voru eftir af leikum gerði ég þau mistök, en ég hélt reyndar að ég væri að gera rétt. Ég varði frá einum af þeim strákum sem létu hvað verst við mig. Hann tók því ekki jafn vel og ég. Hann hljóp að mér, tók mig niður og hélt mér. Síðan kom annar strákur að okkur og hóf að sparka í mig. Ég sem hélt ég væri bara að gera það sem mér var ætlað að gera, að verja markið, en allt í einu var það orðið rangt. Gekk þetta svona það sem eftir lifði af frímínútunum. Þessar tvær mínútur voru eins og heil eilífð. Á meðan þetta gerðist voru um 20 krakkar á vellinum, allir sáu þetta en enginn gerði neitt, eina sem gerðist var að annar fór í markið. Hann fór að verja markið í stað þess að hjálpa mér. Það var svo sárt að sjá að öllum var sama. Öllum var nákvæmlega sama að þetta væri að gerast fyrir framan þau.

Þá kom 8. bekkur

 

Þetta var mjög erfiður bekkur þar sem ég hafði engan til að tala við. Engir vinir, ekkert. Í fyrsta skipti á minni skólagöngu leið mér eins og ég væri aleinn. Eina jákvæða sem ég sá við þetta ár var að einn af þeim strákum sem verst fóru með mig hafði yfirgefið skólann. En það var líka það eina. Þótt hann væri farinn voru fjölmargir eftir. Þarna fóru líka verri hlutir að heyrast og þeir fóru að heyrast oftar.

Sem sagt; þetta versnaði þótt ég héldi  að það gæti ekki gert það. Einnig  fórum við að starfa meira með eldri krökkunum þar sem við vorum komin í 8. bekk. Mér var gert að vera meira með þeim krökkum sem létu hvað verst við mig. Í þessum bekk vorum við sett í tíma sem hétu „Hreysti“ og voru kenndir  með 9. og 10. bekkingum.  Eru þetta verstu tímar sem ég hef upplifað á ævi minni.  Eða kannski  ekki tímarnir,  þannig  séð. Auðvitað  var áreiti í tímunum  en þó ekki svo mikið,  því kennarinn var svo mikið með okkur. En búningsklefinn var lang verstur. Ég var frekar seinþroska miðað við jafnaldra mína og var ég oft látinn rækilega vita af því. Það var gert  grín að útliti mínu og af þeim sökum leið mér illa með hvernig ég leit út. Það var síðan einn daginn þegar ég var að klæða mig í sokkana að einn af strákunum kom og „cock slappaði“ mig. Það hlógu allir. Mér leið virkilega illa og óskaði að ég væri ekki þarna. Ég flýtti mér að taka dótið mitt saman og fór heim. Svona gengu þessir tímar fyrir sig allt þetta ár.

Ég ætlaði að drepa mig

 

Miðvikudagur í 8. bekk. Dagurinn er mér minnisstæður, enda var hann slæmur á svo sérstakan hátt. Enginn talaði við mig. Það hafði ég aldrei upplifað. Alla skólagönguna höfðu krakkarnir sagt alltaf eitthvað við mig og því var þetta mjög sérstakt. Margir myndu halda að þetta hafi verið jákvætt því að á meðan þau segðu ekkert við mig þá segðu þau ekkert slæmt. En málið er að þegar þau sögðu eitthvað var ég til. Ég gekk heim og tárin brutust fram. En mig langaði ekki að gráta, langaði ekki að neinn sæi hvernig mér liði. Ég gekk hratt heim og þegar þangað var komið henti ég töskunni frá mér. Fór beint upp í rúm og hágrét. Það eina sem ég gat hugsað um var; af hverju er ég að lenda í þessu, hvað er ég að gera rangt? Ég gat ekki meir, ég bara gat ekki lifað við þetta lengur. Ég fór inn í bílskúr, fann þar nytsamlegan spotta, í það minnsta nógu nytsamlegan í það sem ég ætlaði að gera. Fór með hann inn í herbergi og batt hnútinn. Þar sat ég grátandi með hnútinn í hendinni. Það eina sem kom upp í huga minn var að mig langaði ekki að lifa lengur. Ég stóð á fætur og ætlaði að fara að huga að staðnum þar sem ég ætlaði að binda endi á líf mitt. Þá heyrði ég útihurðina opnast. Í flýti faldi ég spottann, þurrkaði tárin úr augunum og lagðist upp í rúm eins og ég væri að reyna að sofa. Herbergisdyrnar opnuðust og mamma spyr: „Ertu að reyna sofa?“. Þennan dag kom mamma fyrr en venjulega heim úr vinnunni og bjargaði því lífi mínu.

9. bekkur og nýi strákurinn

 

Þá var komið að 9. bekk. Ég var búinn undir að þetta allt myndi halda áfram eins og það hafði gert síðustu ár. En þá sá ég eina breytingu. Í bekkinn var kominn nýr strákur. Þarna sá ég stórt tækifæri sem ég gæti nýtt mér og því miður nýtti ég mér það. Ég kom virkilega illa fram við hann, reyndi að útiloka hann, sagði ljóta hluti og reyndi að særa hann. Bara til þess eins að fólkið sem komið hafði svona fram við mig öll þessi ár myndi sjá að ég gæti gert þetta líka, ég gæti alveg verið einn af þeim. Þennan vetur var bekkurinn minn í samkennslu með 10. bekkingum. Árið á undan vorum við hins vegar í samkennslu með bekknum fyrir neðan okkur, sem sagt þá 7. bekk. Krökkunum sem voru ári eldri en við, sem þá voru í 9. bekk, var kennt með þáverandi 10. bekkingum. Tíundu bekkingar höfðu því umgengist eldri krakkana árið áður, þá sömu og höfðu farið hvað verst með mig árin áður. Og þeir lærðu margt miður gott af þeim. Það seig því enn frekar á ógæfuhliðina. Það var sama hvað ég gerði nýja stráknum, álit hópsins á mér jókst ekki. Það eina sem gerðist var að þau sögðu enn meira af miður fallegum hlutum við mig. En ég hélt þó áfram að reyna og reyna.

 

Dagurinn sem ég loksins fattaði hvað hafði gerst

 

Þessi dagur er stærsti dagur í öllu mínu lífi. Þetta var um vorið í 9. bekk. Ég var að vinna hópverkefni með nýja stráknum og einum öðrum dreng. Ég hafði byggt upp svo mikið hatur í garð nýja stráksins því jú, hann var nýi strákurinn. Ég vildi svo mikið reyna vera einn af þeim sem höfðu lagt líf mitt í rúst. En aftur að þessum degi. Við sátum framarlega í stofunni, svo ekki var langt í kennarann. Nýi strákurinn kom með góðar hugmyndir um hvernig við ættum að vinna verkefnið en ég hunsaði þær og sagði honum að þær væru asnalegar og við ættum að fara annað hvort mína leið eða leið hins stráksins. Um þetta var þjarkað alla kennslustundina. Bjallan hringir og næsti tími er Hreysti, sem hélt áfram að vera eins og árið áður. Kennarinn kallar á mig og biður mig um að bíða, því hann ætli að tala við mig. Þegar allir voru farnir úr stofunni gengur kennarinn að mér og fer að tala um hversu leiðinlega ég hafi látið við nýja strákinn í tímanum, hegðun mín sé ekki boðleg.

Það var þá sem ég loksins fattaði almennilega hvað hafði gerst. Það sem ég gerði var ekki rétt og því var allt það sem hafði verið gert á minn hlut til margra ára heldur ekki rétt. Þó svo eineltið hefði verið í gangi í tíu ár fattaði ég þetta ekki fyrr en þarna. Ástæðan? Þetta hafði alltaf verið svona. Ég hafði aldrei upplifað dag í skólanum sem var ekki svona. Ég brotnaði niður fyrir framan kennarann og sagði hvernig mér liði og hvernig líf mitt væri búið að vera síðustu tíu ár. Það var svo góð tilfinning að hafa loksins komið þessu frá mér. Loksins eftir öll þessi ár. Það sem ég er þakklátur fyrir að hafa verið í tíma hjá þessum kennara því hann er einn sá skilningsríkasti sem ég hef nokkru sinni haft. Kennarinn hjálpaði mér mjög mikið eftir þetta og strax daginn eftir hafði hann útvegað mér tíma hjá skólasálfræðingi.

 

Bjargvætturinn í lífi mínu

 

Þegar ég ákvað að segja þessa sögu var það jafnframt meðvituð ákörðun að nafngreina engan því tilgangur minn með þessari frásögn er ekki að búa til leiðindi heldur að hjálpa mér sjálfum að komast yfir þetta fyrir fullt og allt. En þó vil ég engu að síður nafngreina eina manneskju sem ég á líf mitt að launa: Sigurður Ingvar Þórarinsson, strákurinn sem kom nýr inn í 9. bekk. Strákurinn sem ég tók fyrir. Ég get ekki lýst því hversu mikilvægur hann hefur verið mér og er enn. Hann hjálpaði mér í gegnum alla þá daga sem ég átti eftir í grunnskólanum og stóð með mér hvern einasta dag. Hlustaði á mig í hvert skipti sem ég þurfti bara að tala, leiddi huga minn frá öllu og gat fengið mig til að brosa og hlæja hvern einasta dag þótt skóladagurinn hafi tekið á. Ég er honum svo þakklátur að ég get hreinlega ekki lýst því. Betri dreng er vart hægt að finna. Svo ég segi bara: „Takk Ingvar fyrir allt sem þú gerðir!“ (hann notar ávallt millinafnið sitt).

Lífið eftir að ég sagði frá

 

Eftir að ég sagði frá breyttist allt. Hvorki til hins betra né verra. Ég var loksins búinn að átta mig á því hvað hafði gerst. Það var svo mikið áfall að ég gat ekki horfst í augu við þau lengur, ég vissi þó að þau vissu ekki að ég hafi sagt frá. En samt, ég bara gat það ekki. Í stað þess að eyða allri orkunni í að reyna að vera einn af hópnum eins og ég gerði alltaf áður og sleppa þannig við allt áreitið, eða ég hélt það í það minnsta, þá sat ég við borðið mitt í öllum frímínútum og sagði ekkert. Ég hélt bara áfram að læra eða fór að lesa bók til að láta tímann líða. Þrátt fyrir þetta reyndu þau alltaf að halda áfram, gengu reglulega að borðinu mínu, ýttu í mig, voru með skítkast við mig, öskruðu á mig. Þau gerðu þetta þrátt fyrir að ég væri ekkert fyrir þeim. Ég áreitti þau ekkert, sagði ekkert, en samt létu þau mig ekki í friði.

Fyrsti sálfræðingurinn minn

 

Einn dag í viku kom sálfræðingur í skólann minn því einelti var þar stórt vandamál. Þó þessi saga fjalli einungis um það sem ég lenti í, þá var ég ekki sá eini í þessum sporum. Kennarinn sem ég talaði við hafði pantað tíma hjá skólasálfræðingnum og kom hann í skólann nokkrum dögum eftir að ég sagði frá. Ég gekk inn á bókasafn þar sem viðtölin fóru fram. Settist þar á stól fyrir framan konu. Hún sýndist vera yndisleg en ég hreinlega treysti henni ekki. Ég gat ekki treyst henni fyrir neinu sem ég hafði lent í og talaði því eiginlega ekkert um það sem ég hafði lent í. Fjörutíu mínútum eftir að viðtalið hófst stóð konan upp og sagði að tímanum væri lokið því hún þyrfti að tala við fleiri. En það næsta stakk mig mest í hjartastað. Hún sagði í lokin að hún ætlaði að ræða við skólastjórann um þessi vandamál mín. Ég hafði borið þær vonir í brjósti að allt sem kæmi fram í þessu viðtali væri trúnaðarmál. Nei, skólastjórinn fékk víst að vita allt.

Framhaldsskólinn beið

 

Eftir að foreldrar mínir fengu að vita af þessu ræddu þeir mikið um næstu skref. Þau vildu skoða þann möguleika að koma mér ári á undan í framhaldsskóla. Þau sendu mig viku í burtu til bróður míns sem þá bjó á Akureyri. Hugsunin með þessu var að gefa mér frí frá því umhverfi sem ég var búinn að vera fastur í allt of lengi. Þessa viku fór ég í nokkur viðtöl til námsráðgjafa í Naustaskóla sem hjálpaði mér mikið að koma mér út úr því mynstri sem ég var orðinn fastur í. Mér var síðan komið í samband við námsráðgjafa í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þar gekkst ég undir áhugasviðspróf og fljótlega eftir það fórum við á fund skólameistara og aðstoðarskólameistara til að ræða þann möguleika að ég fengi að fara í VMA um haustið. Ekki þarf að orðlengja það að skólavist mín var samþykkt. Ég var svo glaður að engin orð fá því lýst. Loksins var ég á leið úr skólanum þar sem ég hafði þurft að þola stanslaust áreiti hvern einasta dag. Eða það hélt ég.

 

Næsta stopp

 

Það eina sem stóð í vegi fyrir skólavist minni í framhaldsskóla var að ég hafði ekki útskrifast úr grunnskóla. Það var í verkahring skólastjóra grunnskólans sem ég hafði gengið í og í ljós kom að hann var ekki sérstaklega sáttur við það sem við vorum að gera til að vernda sál mína. Skólastjórinn neitaði að staðfesta útskrift mína úr grunnskóla. Ég get ekki lýst því hversu sárt það var að heyra það. Vita það að skólastjórinn vildi halda mér í þessu fangelsi í eitt ár í viðbót í stað þess að leyfa mér að fara og hefja nýtt líf í nýjum skóla. Pabbi ákvað að fara á fund skólastjórans til að fá frekari útskýringar á þessari afstöðu. Skilaboð skólastjórans voru að þetta væri innanbúðarvandamál sem ætti að leysa innan veggja skólans og lausnin væri alls ekki að leyfa mér að fara. Ég ætti að vera þar áfram svo hægt væri að leysa vandamálið. Í lok samtalsins sagði skólastjórinn að þetta svokallaða einelti sem ég segðist hafa orðið fyrir væri hreinlega sjálfum mér að kenna. Það var ólýsanlega sárt að heyra þetta.  En þetta jók þrá okkar að koma mér í burtu því ekki vildu foreldrar mínir hafa mig í skóla sem stjórnað væri af manneskju sem segði svona hluti. Pabbi hafði því samband við menntamálaráðuneytið sem fór síðan fram á við skólastjórann að staðfesta útskrift mína úr grunnskóla. Það var mikill léttir þegar ég heyrði að ég fengi að útskrifast, gæti loksins losnað frá þessum stað!

Lífið eftir grunnskólann

 

Það var algjör hamingja að byrja loks í framhaldsskóla. Nýr staður, nýtt líf, nýtt fólk. Eineltið horfið þar sem enginn þekkti mig í þessum skóla. En hins vegar hófust þá árekstrarnir við fortíð mína sem hafði skapað persónu sem er skilgreind sem ónýta eplið í hópnum. Ég átti erfitt með samskipti við fólk, hreinlega af því ég kunni þau ekki, ég kunni bara að svara fyrir mig. Ég var brotinn og því mjög viðkvæmur fyrir því sem sagt var við mig. Fljótlega eftir að ég hóf nám í VMA, hjálpaði Ingvar mér að komst inn í náinn vinahóp. Mér leið vel og héngum við saman hvern einasta dag. Varð ég mjög náinn einni manneskju í þessum hópi og varð hún besta vinkona mín og var eiginlega sú vinkona sem allir tala um, sem maður getur sagt allt. Aldrei hafði ég átt neina svona vinkonu áður. Loksins eftir tíu ár fann ég manneskju sem ég treysti fullkomlega. Ég var svo glaður. Fljótlega byrjaði ég með annarri stelpu í þessum vinahópi, fyrsta kærastan sem ég átti í framhaldsskóla.

En þá kom fortíð mín til sögunnar. Undirliggjandi var þetta vantraust til allra sem hafði þróast með mér eftir því sem leið á eineltið. Ég treysti ekki kærustu minni og hætti hún fljótlega með mér. Ég skil hana fullkomlega en þetta gerði það að verkum að vinahópurinn sprakk og ég missti alla vini mína. Af asnaskap mínum fyrir að leyfa fortíðinni að vera svona stór partur af lífi mínu missti ég einnig þessa bestu vinkonu, þá manneskju sem ég hafði treyst hvað mest allt mitt líf. Hún var farin. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. En lífið þurfti að halda áfram. Með tímanum þróaðist með mér vanlíðan því ég gat aldrei sætt mig við fortíðina og áhrif hennar komu ítrekað í ljós. Tveimur árum síðar komst ég inn í annan vinahóp en sama sagan endurtók sig. Ég var alltaf að eignast vini og missa þá jafn óðum. Af hverju? Fortíðin mín.

Hjálpin

 

Eftir að ég hóf nám í VMA gekk ég reglulega til sálfræðings í ríflega tvö ár. Sálfræðiviðtölin hjálpuðu mér mjög mikið að komast yfir margar hindranir. En þó ekki að komast yfir verstu hindrunina, fortíð mína. Hún var ennþá að gera mér lífið leitt. Af einhverjum ástæðum hætti ég að hitta sálfræðinginn eftir eitt sumar í sveitinni og því komust við aldrei yfir þessa erfiðustu hindrun. Ég ákvað því að ég ætlaði bara að reyna breyta lífi mínu til hins betra með eigin hjarta og huga. Það var ekki sérstaklega góð hugmynd. Ég fór að loka meira að mér. Vernda mig meira, komast hjá því að tala við fólk til að forðast árekstra. Vanlíðanin var svo mikil að hún var orðin hættuleg. Sjálfsmorðshugleiðingarnar leituðu á mig. Í von um að geta komið mér út úr þeim ákvað ég að senda póst á sálfræðinginn minn og segja honum hvernig mér liði. Daginn eftir vekur pabbi minn mig og segir að við séum á leiðinni á      Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem ég þurfi nauðsynlega að hitta geðlækni. Dagarnir voru misjafnir og daginn sem ég átti að hitta geðlækninn vaknaði ég mjög ánægður með lífið og tilveruna. Geðlæknirinn útskrifaði mig og sagði að ég væri ekki í neinni sjálfsmorðshættu. Hann hafði kannski rétt fyrir sér á þeim tíma en þetta hjálpaði mér ekkert, mér leið jafn illa.

Þegar fjögur ár voru liðin á Akureyri ákvað ég að hitta sálfræðing í VMA og hjálpaði hann mér mjög mikið í þeim fáu tímum sem ég gat hitt hann. Vegna þess að það var mikið að gera hjá okkur báðum þá einhvern veginn fjaraði þetta út.

Sex árum eftir að ég flutti til Akureyrar tók ég síðan þátt í yndislegri leiksýningu í VMA, „Mér er fokking drullusama“, sem var skrifuð og leikstýrt af Pétri Guð og Jokku. Verkið fjallaði um strák sem hafði reynt ýmislegt um ævina, baráttu hans við sjálfan sig og það sem fór í gegnum hausinn á honum. Þarna tengdi ég við einhvern. Mér fannst eins og þessi sýning væri um mig og snerti hún mig mjög mikið. Þá fattaði ég virkilega hversu stutt ég væri kominn í bataferlinu.

Líf án pabba

 

Svo ég taki það skýrt fram þá er það ekki svo að pabbi hafi dáið eða ég sé ekki alinn upp hjá honum. Mamma og pabbi eru í dag hamingjusamlega gift og allt það. Þegar ég hugsa til baka til þess tíma þegar ég var í grunnskóla þá man ég að pabbi vann mikið. Hann var alltaf að vinna. Annað hvort var hann í sinni daglegu vinnu eða sat inni á skrifstofu og færði bókhald fyrir ýmis fyrirtæki sem hann bókaði fyrir.

Þegar ég var átta ára réðist fjölskylda mín í að byggja safn í sveitinni og fór allur frítími pabba í það verkefni. Auðvitað hjálpaði ég honum við að byggja en þó var alltaf eins og hann væri í vinnunni. Til að ná sambandi við hann þurfti ég að fara inn á skrifstofu og tala við hann meðan hann vann. Alltaf vissi ég þó að ég gæti treyst honum en ég gerði það þó ekki þrátt fyrir allt. Mér fannst hann aldrei hafa tíma fyrir mig. Svo kom að því að hann fór að vinna á Grænlandi í tvö og hálft ár þar sem hann var mánuð heima og mánuð úti og þá auðvitað var hann enn fjarlægari. Á tímabili leið mér eins og ég ætti ekki pabba. Við höfðum aldrei tengst og segja má að ég hafi ekki náð að tengjast fjölskyldunni minni eins og maður á að gera. Mér leið alltaf eins og ég ætti ekki heima í henni, þar sem ég upplifði mig öðruvísi. Það var alltaf svo erfitt að hlusta á alla sem voru í kringum okkur lýsa öllu því sem pabbi gerði með eldri systkinum mínum en gerði svo aldrei með mér, því hann var alltaf upptekinn við að vinna.

Hins vegar er veruleikinn annar í dag. Nú er ég tengdari fjölskyldu minni en ég var og tengist henni meira og meira með tímanum. Í dag er pabbi allt önnur manneskja en hann var. Hann gefur sér meiri tíma til að vera með okkur, sem er alveg yndislegt. Núna gerum við hlutina saman.“

Af hverju ég er eins og ég er

 

Öll mín ævi hefur byggst upp á því að vera í vörn, verja sál mína fyrir því sem aðrir hafa reynt að níðast á. Allt sem fer í gegnum hausinn á mér hverju sinni er allt ofhugsað og túlka ég hluti allt öðruvísi en þeir eru í raun og veru. Sem sagt; ég sit enn í gömlu vörninni sem ég þurfti að vera í. Ég ýti fólki í burtu frá mér því ég held ég þurfi þess, er alltaf hræddur um að lenda í öllu aftur. Ég er lokuð persóna því ég treysti engum, traustið er alveg farið og það er ekki fyrr en núna sex árum eftir að ég flutti að ég steig út úr þægindarammanum og ákvað að ég þyrfti að segja einhverjum þetta allt og treysta einhverjum, þetta var búið að vera þarna inni of lengi. Vegna lítils trausts þá einmitt treysti ég engum fyrir mér heldur og ýti því öllum í burtu. Ég brýt mig markvisst niður alla daga því það var það sem mér var kennt. Það er ekki nóg að ég ofhugsi allt og túlki hluti verr en þeir í raun eru heldur held ég áfram að segja alla þessa hluti við mig, brjóta mig niður og fá mig til að trúa því að þeir séu sannir.

 

Því er sjálfstraust mitt eins lítið og hægt er og því er ég í vörn alla daga. Ég kem því mörgum fyrir sjónir sem frekar leiðinleg og köld manneskja með engan kærleika, einfaldlega vegna þess að ég treysti engum. Kem illa fram við fólk svo það fer frá mér, ekki af því að mig langi það, heldur vegna þess að mér finnst ég þurfa þess. Ég er manneskja sem er full af kærleika og gleði, full af góðmennsku og vil öllum vel, en ég bara þori ekki að sýna það, treysti mér ekki að sýna það því ég er hræddur við viðbrögðin. Í dag berst ég við geðsjúkdóma sem urðu til vegna þeirra aðstæðna sem ég var í. Ég er þunglyndur og með kvíð, þetta er það sem búið er að greina mig með. Þetta tvennt er beint hægt að rekja til eineltisins sem ég varð fyrir. Ég er hræddur við fólk og tengist því fáum. Ofan á þetta allt kem ég verst fram við sjálfan mig, geri of miklar kröfur til mín, brýt mig niður, banna mér að gera mistök og ef ég geri þau þá refsa ég mér.

Gríman og ég

 

Til að komast í gegnum þetta allt bjó ég til grímu sem var í raun venjulegur strákur sem var ánægður með lífið. Má því segja að ég hafi búið til annan persónuleika til að vernda minn eigin persónuleika. Með þessu náði ég að fela þá vanlíðan sem ég lifði með og vegna hennar vissi enginn hvað var í gangi. Þessi aðferð mín varð til þess að enginn vissi hvernig mér leið, hvað ég var að hugsa, hvað var að fara í gegnum hausinn á mér á þeim tíma sem fólk var með mér og það versta af öllu, það vissi enginn hver ég var því gríman faldi mig. Hins vegar varð þetta mikið alvarlegra en þetta þar sem ég fór að lifa sem gríman, sem önnur manneskja.

Í dag veit ég ekki hver ég er þar sem ég þekki bara grímuna mína, þekki ekki sjálfan mig. Mér finnst ég óöruggur í samskiptum við fólk þar sem ég held alltaf að það muni kynnast mér á undan sjálfum mér, sem er ekki hægt, en ég held það samt. Ástæðan fyrir því að ég fór að lifa sem önnur manneskja í upphafi var að mér fannst ég þurfa þess. Þrátt fyrir það hata ég grímuna mína, hún byggist á vörn þar sem hún bjó til skel utan um sál mína á þessum erfiðu tímum.

Gríman veldur því að ég fer í vörn út af öllu sem er sagt við mig og gagnvart öllum sem eru í kringum mig og er hreinlega manneskja sem ég vil ekki vera. Nú eru sex ár síðan ég flutti og enn lifi ég sem önnur manneskja, ekki af því að mig langi það eða ég þurfi þess. Einfaldlega vegna þess að ég þekki mig ekki lengur, veit ekki hvað mér finnst skemmtilegt, veit ekki hvað mér finnst leiðinlegt, veit ekki hvað ég stend fyrir, veit ekki hver ég er. Ég er lifandi manneskja en þekki þó ekki þá manneskju sem ég lifi.

Ég ákvað að skrifa sögu mína því hún hjálpar mér að sætta mig við fortíðina, að hún hafi gerst þótt ekkert í henni hafi verið rétt. Einnig vonaðist ég til að hún myndi hjálpa mér að geta loksins fundið mig. Geta loksins eftir allan þennan tíma orðið ég, orðið það sem ég stend fyrir.

Helsti tilgangur þessarar sögu er að þú, lesandi góður, skiljir hvernig ég er og af hverju ég er eins og ég er, þótt þessi heimur sé svo brenglaður að sumir muni ekki skilja hann. Einnnig er stór tilgangur sögu minnar að skapa umræðu um málefni sem er allt of falið í samfélaginu. Því vona ég að þessi frásögn nýtist einhverjum sem hafa upplifað eitthvað svipað til að stíga fram og leita sér hjálpar. Í dag leita ég reglulega hjálpar hjá Aflinu á Akureyri, sem hefur hjálpað mér virkilega mikið að vinna úr þessum hlutum og kynnast sjálfum mér. Að leita til Aflsins er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni.

Takk fyrir að gefa ykkar tíma til að lesa þessa sögu.

 

-Stefán Jón Pétursson

 


Athugasemdir

Nýjast