Kinnungar þurftu flestir að greiða fyrir gistingu

Íbúar í Kinn og Útkinn þurftu að yfirgefa heimili sín vegna hættuástands sem skapaðist vegna aurskri…
Íbúar í Kinn og Útkinn þurftu að yfirgefa heimili sín vegna hættuástands sem skapaðist vegna aurskriða fyrr í þessum mánuði. Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystra)Facebook

Óvissustigi hefur verið aflétt í Kinn og Útkinn í Þingeyjarsveit eftir að aurskriður féllu í byrjun mánaðarins. Alls þurftu ríflega 50 manns að yfirgefa heimili sín á meðan ástandið var verst.

Ljóst er að umtalsvert tjón hefur orðið sem erfitt er að meta. Aur og drulla flæddi víða yfir ræktarland og vegi. Vinna er hafin við hreinsunarstarf.

Þá er ótalinn kostnaður sem íbúar sveitarinnar þurftu að bera vegna gistingar þegar þau þurftu að flýja heimili sín.

Róshildur Jónsdóttir, bóndi á Rangá var ein þeirra sem þurfti að yfirgefa heimili sitt en hún rekur einnig gistiþjónustu í fimm húsum á jörð sinni sem voru í útleigu. Hún þarf að bera þann kostnað sjálf.

„Við þurftum að borga það allt sjálf. Ég spurði lögregluna út í það og fékk þau svör að það væri ekki venjan að greiða fyrir gistingu fólks þegar svona gerðist,“ segir Róshildur í samtali við Vikublaðið.

Þá segir hún að ferðafólk sem hafi verið í gistingu hjá sér hafi þurft að flytja sig yfir á hótel og greiða aukakostnað sem því fylgdi.

„Við vorum sótt af Björgunarsveitinni, allir sem voru hjá mér. Sumir fóru til Akureyrar en aðrir til Húsavíkur og borguðu þar fyrir sína gistingu. Við vorum alla vega 10 sem vorum sótt af Björgunarsveitinni og þurftum að borga fullt verð,“ segir Róshildur.

Þá sér Róshildur fram á tjón vegna lokunar gistihúsanna. „Ég þurfti líka að hafa gistiheimilið lokað í fimm daga þannig að þetta er talsvert tjón fyrir mig sem ég er ekki að sjá að ég muni fá bætt. Tryggingar dekka ekki tjónið þar sem ekki er um eignatjón að ræða,“ segir hún og bætir við að í raun sé um lengri tíma en þessa fimm daga sem hún missir úr rekstrinum því sumar bókanirnar hafi verið til lengri tíma.

Þó flestir hafi þurft að útvega sér gistingu sjálfir, þá voru nokkrir sem fengu hótelgistingu greidda af Ríkislögreglustjóra.

Hermann Karlsson sem var yfir aðgerðarstjórn Almannavarna segir í samtali við blaðið að samtal hafi verið tekið við íbúa þegar aðstæðurnar komu upp. „Þá var tekið samtal við þá aðila sem voru á umræddum heimilum. Þegar farið er í rýmingar þá er fjöldahjálparstöð yfirleitt opnuð, það er hefðbundið verklag. Þá er í boði að vera þar og fá þá þjónustu sem þarf, yfirleitt í grunnskólum eða einhverju slíku,“ segir hann.  

Í þessu tilfelli var tekin ákvörðun um að virkja ekki fjöldahjálparstöð. „Því það kom í ljós þegar samtalið við íbúa var tekið að langflestir höfðu möguleika á því að eigin sögn að útvega sér gistingu sjálfir. Hvort sem það var hjá vinum og ættingjum eða eitthvað annað,“ útskýrir Hermann og bætir við að á þessu hafi verið undantekningar.  

„Ég veit að eftir stóðu örfáir aðilar og þeim var útveguð gisting á kostnað embættisins. Þannig er verklagið,“ segir hann.


Nýjast