11.desember - 18.desember - Tbl 50
Jólasöfnun Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis hafin
Stöðug fjölgun er í hópi þeirra sem óska eftir aðstoð Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis. Úthlutað er úr sjóðnum yfir allt árið þó flestir sækist eftir aðstoð fyrir hátíðarnar. Fyrir jólin 2023 barst metfjöldi umsókna en með góðum stuðningi frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum var hægt að styðja við þau heimili sem þurftu hjálp. Stjórn sjóðsins gerir ráð fyrir að umsóknir nú verði síst færri en í fyrra. Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis og Rauði krossinn við Eyjafjörð hafa frá árinu 2013 haft samstarf um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu og síðustu þrjú ár hefur samstarfið verið yfir allt árið.
Herdís Helgadóttir, formaður stjórnar Velferðarsjóðs, segir að umsóknir séu byrjaðar að berast vegna jólaaðstoðar og hægt er að sækja um rafrænt eða í síma. Síðasti dagur til að sækja um er á þriðjudag í næstu viku.
„Ástandið er alls ekki gott, það má í raun segja að víða ríki neyð og margir ná engan veginn endum saman. Við sjáum að ástandið hefur versnað á árinu, það var slæmt fyrir jólin í fyrra og því má segja að það sé dálítið ógnvekjandi að horfa fram á að þörf á aðstoð núna eigi enn eftir að aukast. Við treystum á að samfélagið standi með okkur líkt og verið hefur og að við komumst saman í gegnum þennan skafl,“ segir Herdís.
Herdís Helgadóttir
Hafa ákveðna upphæð til ráðstöfunar
Á liðnum árum hefur fjöldi þeirra sem óskar eftir aðstoð vaxið jafnt og þétt. Fyrir síðustu jól hækkaði velferðarsjóðurinn þá upphæð sem kom í hlut hvers og eins umsækjenda vegna mikilla verðhækkana. „Við reynum hvað við getum að koma til móts við okkar skjólstæðinga, bæði fyrir jólin og yfir allt árið, en úthlutum ekki meiru en safnast. Við vildum gjarnan aðstoða fólk oftar á ári og með hærri upphæðum en við úthlutum hverri krónu ekki nema einu sinni.“
Erfitt efnahagsástand
Herdís segir efnahagsástandið hafa áhrif á fólk sem hafi mun minna svigrúm nú þegar vextir hafa verið í hæstu hæðum á árinu, leiga hafi hækkað umtalsvert og matarkarfan kosti sífellt meira. „Laun hafa ekki hækkað í takt við matarkörfuna og því eru margir í erfiðri stöðu. Við finnum það örugglega flest að það er dýrara að lifa og þau sem höfðu lítið fjárhagslegt svigrúm áður hafa í mörgum tilfellum lent í vandræðum. Við erum að sjá fólk sem býr í eigin húsnæði óska eftir aðstoð, en það er hópur sem var ekki áberandi hjá okkur áður. Í stuttu máli má segja að stór hluti samfélagsins hafi úr minna fé að spila og það má ekkert út af bregða hjá mörgum,“ segir hún.
Það er enginn einn hópur sem leitar aðstoðar sjóðsins en öryrkjar hafa í gegnum tíðina verið fjölmennasti hópurinn. Örorkubætur hafa lítið sem ekkert hækkað á árinu svo stjórn sjóðsins býst ekki við því að þörf fyrir aðstoð minnki meðal þess hóps. Hið sama má segja um aðra hópa sem eru utan vinnumarkaðar og/eða á framfærslu sveitarfélaga, auk fólks í láglaunastörfum.
Nærsamfélagið hefur staðið við bakið á okkur
Herdís nefnir að kostnaður við heilbrigðisþjónustu, lyfjakaup og að fara tannlæknis séu útgjöld sem margir ráði ekki við. Það getu verið þungur pakki fyrir þau sem ekki hafa úr miklu að moða.
Herdís segir að bróðurpartur þess fjármagns sem Velferðarsjóðurinn hafi til umráða komi inn á þessum tíma, skömmu fyrir jól, og margir láti fé af hendi rakna. Þar megi nefna fyrirtæki, stéttarfélög, félagasamtök og einstaklinga. „Við treystum á framlög frá þessum aðilum og það er ómetanlegt hve þétt samfélagið hér í Eyjafirði stendur á bak við okkur. Það má alveg segja að það sé svolítið ógnvekjandi að vita ekki fyrirfram hversu mikið safnast, sérstaklega þegar við vitum að eftirspurnin er svona mikil. En við vonum að það gangi eins vel og áður, eða helst enn betur því við þurfum að safna meiru en nokkru sinni fyrr. Framlög eru þegar farin að berast og við erum bjartsýn á að vel takist til líkt og á liðnum árum,“ segir hún.
Herdís segir að Velferðarstjarnan hafi vakið lukku í fyrra og aukið á sýnileika Velferðarsjóðs, m.a. á þann hátt að fleiri einstaklingar en áður hafi stutt við bakið á sjóðnum.