Íþróttafélögin uggandi

Það er tómlegt um að lítast á íþróttavöllum bæjarins þessa dagana
Það er tómlegt um að lítast á íþróttavöllum bæjarins þessa dagana

Samkomubannið vegna kórónuveirunnar hefur mikil áhrif á íþróttalífið þar sem allar æfingar liggja niðri og óvíst er hvenær hægt verður að fara af stað aftur. Fjárhagslegt tjón blasir við íþróttafélögum þar sem félögin gera ráð fyrir ákveðnum tekjum af æfingagjöldum, kappleikjum, viðburðum, krakkamótum o.s.frv, auk styrkja frá fyrirtækjum. Bannið verður til 13. apríl hið minnsta en líklegt þykir að það verði framlengt um óákveðinn tíma.

Vikudagur kannaði stöðuna hjá Íþróttafélagi Þórs og KA og heyrði hljóðið í framkvæmdastjórum félaganna.

Óvissa um stór krakkamót

„Það er mismunandi eftir íþróttagreinum hvernig bannið kemur við fjárhag félagsins,“ segir Reimar Helgason framkvæmdastjóri Þórs. „Handboltinn og körfuboltinn eru að klára tímabilin meðan fótboltinn er á fullu í undirbúningi og búið að gera samninga við leikmenn og þjálfara og þar er óvissan mest. Við frestuðum tveimur stórum krakkamótum sem áttu að vera í mars sem hefðu væntanlega gefið okkur í kringum 10 milljónir og það er allt í óvissu með það. Það segir sig sjálft að það er mikið högg fyrir þær deildir sem standa fyrir því móti. Þetta allt kemur ofaní 2019 þar sem allir lentu í niðurskurði á styrkjum,“ segir Reimar. Hann segir félagið óttast brottfall meðal iðkenda. „Já við gerum það. Við vitum ekki hvort við getum klárað vertíðina miðað við ástandið og þegar við byrjum nýtt tímabil í sumar þá má búast við að það detti einhverjir út.“ Reimar segir sérstakt andrúmsloft í Hamri og á æfingasvæði Þórs þessa dagana þar sem fáir eru á ferli. „En það er ekkert alslæmt því að þegar svona hlutir koma upp þá sér maður alltaf hvað baklandið í svona félagi er sterkt og hvað viljinn til að komast í gegnum þetta og lifa þetta af sem félag er sterkur.“

Fresta eða fella niður allt 65 af áætluðum tekjum

„Þetta samkomubann er að hafa gríðarleg áhrif á allan rekstur KA,“ segir Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA. „Félagið er að gera ráð fyrir því að þurfa fresta eða fella niður um 60-65% af áætluðum tekjum núna í mars/apríl þannig að það setur allt fjárflæði félagsins úr skorðum. Við vonum vissulega að eitthvað af þessum tekjum koma síðar á árinu en óvissan er óþægileg,“ segir Sævar. Þá standi yfir samtal við starfsmenn félagsins. „Leikmenn og þjálfarar eiga mikið hrós skilið því allir sem rætt hefur verið við skilja stöðuna og vilja hjálpa félaginu sínu með því að taka á sig tímabundnar launalækkanir og er það gríðarlega vel gert.  Fyrir það verðum við í KA ævinlega þakklátt en það er í raun og veru eina sem hægt er að gera í stöðunni til að halda félaginu gangandi.“

„Skrýtin tilfinning“

Sævar segir veruna í KA-heimilinu þessa dagana vera einkennilega. „Þetta er mjög skrýtinn tilfinning; að vera hér í vinnunni með lokað mannvirki sem venjulega er fullt út úr dyrum af iðkendum og félagsmönnum. Á sama tíma hef ég eiginlega aldrei haft meira að gera, því ástandið í íþróttalífinu breytist svo hratt og við þurfum því að reyna að aðlagast breyttum aðstæðum jafnóðum. Fjárhagslegar áhyggjur taka síðan sinn toll á okkur sem sitja í þessari stöðu um land allt og eru margar stundir sem maður eyðir á koddanum á kvöldin að hugsa hvernig skuli bjarga morgundeginum eða næstu vikum. Ég vona að þetta ástand vari ekki of lengi og við förum að ná tökum á rekstrinum samhliða því sem ég fari að sjá börn og fullorðna mæta hér í hús full af orku og gleði, tilbúin að æfa og keppa á nýjan leik,“ segir Sævar Pétursson.

 

 


Nýjast