Ungt fólk í fjárhagskröggum fyrir jólin

„Neyðin er mikil og ástandið heldur verra en í fyrra,“ segir Sigurveig Bergsteinsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar Akureyrar. Viðtöl við fólk á Eyjafjarðarsvæðinu sem óskar eftir jólaaðstoð stendur nú yfir en að hjálparstarfinu standa Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn við Eyjafjörð, Mæðrastyrksnefnd og Hjálpræðisherinn á Akureyri. Í fyrra fengu 303 fjölskyldur gjafakort. „Okkar tilfinning er sú að aukningin sé veruleg í ár. Við fáum mikið af nýju fólki í viðtöl og staðan í Eyjafirði er virkilega slæm. Við urðum vör við þessa þróun strax í október.

Einstæðir foreldrar

Sigurveig segir sláandi hversu margt ungt fólk sækir um aðstoð. „Þessa fyrstu daga hafa ungar einstæðar mæður verið áberandi og einnig karlmenn, t.d. einstæðir feður.“ Hún segir sporin þung fyrir marga sem sækja sér hjálpar. „Það er hins vegar engin launung að margir eru í þessari stöðu og fólk á að vera óhrætt við að leita til okkar,“ segir Sigurveig. Hægt er að hringja í númerið 537-9050 á milli kl. 11:00 og 13:00 á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum.

throstur@vikudagur.is

Nýjast