Þjóðþrifaverk sem allir njóta

Ætli það sé ekki rétt að endurtaka það sem ég hef sagt oft áður: Vaðlaheiðargöngin eru þjóðþrifaverk sem styrkir byggðina í landinu, gefur atvinnulífinu aukna möguleika og skapar ný tækifæri fyrir fólk.

Það er því sérstakt fagnaðarefni að um helgina skuli forsætisráðherra hleypa af fyrstu formlegu sprengingunni við gerð Vaðlaheiðarganga. Við sem höfum lengi barist fyrir göngum undir Vaðlaheiði sjáum nú að draumurinn er að rætast. Sem bæjarstjóri á Akureyri tók ég þátt í baráttunni fyrir bættum samgöngum ásamt mörgu öðru góðu fólki.

Líkt og oft áður eru ekki allir á eitt sáttir og þeir eru til sem gagnrýna að ráðist skuli í þessa miklu og nauðsynlegu framkvæmd. Þeir voru einnig margir sem höfðu uppi mótbárur gegn Hvalfjarðargöngunum á sínum tíma, en njóta þeirra nú og geta ekki án þeirra verið.

Hið sama mun eiga við um Vaðlaheiðargöng. Vaðlaheiðargöngin eiga eftir að styrkja alla byggð á Norður- og Austurlandi. Samvinna sveitarfélaga mun aukast og þjónusta opinberra aðila batna.

Atvinnulífið eflast og möguleikar fólks verða meiri og fjölbreyttari. Samgöngubætur sem miða að því að stytta vegalengdir og draga úr kostnaði hafa leitt til margvíslegra margfeldisáhrifa sem þjóðin nýtur með beinum og óbeinum hætti. Allir hagnast. Það getur varla talist óskynsamlegt að ráðast í slík verkefni.

Á það hefur ítrekað verið bent að Vaðlaheiðargöng leysa af hólmi einn af fjölfarnari og erfiðari fjallvegum landsins, Víkurskarð, sem ítrekað lokast yfir vetrarmánuðina vegna óveðurs og fannfergis.

Þetta hefur hvað eftir annað komið í ljós í vetur. Þeir sem ekki hafa kynnst því veðravíti sem þar getur orðið, eiga erfitt að skilja af hverju hart hefur verið barist fyrir samgöngubótum.

Vaðlaheiðargöngin eru góður áfangi í samgöngumálum okkar góða kjördæmis en verkefnin eru mörg og brýn. Góðar og greiðar samgöngur eru forsenda þess að byggðin í landinu eigi sér trausta framtíð.

Ég er sannfærður um að Vaðlaheiðargöngin eiga eftir að reynast arðbær og skynsamleg fjárfesting. Við eigum að gleðjast yfir því að framkvæmdir séu hafnar.

Ég óska okkur öllum innilega til hamingju.

Kriwstján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Nýjast