Staðarstolt
Ragnheiður Skúladóttir skrifar:
Í kvöld, fimmtudagskvöld, er 40. aðalfundur Leikfélags Akureyrar eftir að LA var gert að atvinnuleikhúsi og því ágætt tilefni til að líta um öxl, en einnig fram á veg. Frá árinu 1973 hefur Leikfélagið sviðsett yfir 160 leikverk og þegar horft er til uppsetninganna sést að yfirleitt hefur listrænn metnaður og djörfung einkennt starfið. Sígild verk á borð við Don Juan, Kristnihald undir Jökli, Sölumaður deyr og Hamlet hafa verið færð á svið, einnig Stalín er ekki hér, Silfurtunglið, Ökutímar og Fló á skinni svo fáein séu nefnd.
Í sögu leikfélagsins leynast tap og sigrar, en fyrst og fremst mikil seigla. Nánast frá byrjun hefur stjórnendum leikhússins þótt skorta fé til starfseminnar og tekist hefur verið á um áherslur í rekstri, verkefnavali og um hina listrænu sýn hverju sinni. Það sem einum hefur þótt framúrskarandi hefur öðrum þótt afleitt. En leikhúsið lifir og er enn sem fyrr eina opinbera stofnunin utan höfuðborgarsvæðisins sem sinnir framleiðslu á leiklist.
Vegleg barna- og fjölskyldusýning
Síðustu misserin hefur fjárhagur LA sannarlega verið bágur. Næsta ógerlegt er að reka hefðbundið atvinnuleikhús fyrir það fé sem félagið hefur úr að moða um þessar mundir, á meðan verið er að greiða niður skuldir þess. Tíminn hefur hins vegar verið vel nýttur til þess að treysta innviði starfseminnar, velta fyrir sér rekstrarformi og listrænum áherslum, með það að markmiði að byggja smám saman upp vandaða leiklistarstarfsemi á öllum sviðum. Hugtakið staðarstolt hefur verið okkur hjá LA ofarlega í huga. Við teljum þannig mikilvægt að hlúa að sérstöðu okkar frekar en að líta á hana sem hindrun. Með því að nýta okkur smæðina getum við mótað starfsemina á okkar eigin forsendum, ljáð verkefnum víðari skírskotun og náð að vekja athygli út fyrir okkar næsta nágrenni. Leikfélag Akureyrar er atvinnuleikhús og sem slíkt má það ekki veita afslátt af gæðum starfseminnar. Það er því gleðiefni, að þegar á næsta leikári er við sjáum fram á að endurheimta full fjárframlög til leikhússins, að geta á ný boðið upp á fjölbreytt verkefnaval og við allra hæfi. Þannig gera áætlanir félagsins ráð fyrir því að LA setji upp veglega barna- og fjölskyldusýningu haustið 2014, en verkefni af því tagi er fyrir löngu orðið tímabært.
Leiklistarskóli LA
Leikfélagið sinnir auðvitað ekki aðeins framleiðslu á leiklist, því leiklistarskóli LA er sjálfsagður partur af staðarstoltinu. Á þessu misseri stunda 77 börn í 3. 10. bekk grunnskóla nám við skólann. Sumir þessara nemenda hafa verið með frá stofnun leiklistarskólans. Með honum er að verða til heildstæðasta og öflugasta nám í sviðslistum á Íslandi í þessum aldurshópi. Það verður spennandi að sjá hvernig listnám innan framhaldsskólanna á Akureyri þróast, en gífurlegir möguleikar fælust í nánu samstarfi skólanna og LA.
Samvinna skilar árangri
Að undanförnu hefur leikhúsið átt ánægjulega samvinnu við menningar- og menntastofnanir bæjarins. Gaman er að sjá eldri verkefni styrkjast og ný verða til í þeim samskiptum. Má þar nefna samvinnu við Minjasafnið um draugagöngu og dagskrár í Davíðshúsi og Nonnahúsi, samvinnu við Sjónlistarmiðstöðina, boð til allra leikskólabarna á efsta stigi á jólasýningu okkar í fyrra, samstarf við leikfélög framhaldsskólanna og svo mætti lengi telja. Það er eðlilegur hluti af hugmyndinni um staðarstoltið margumrædda að aðilar í lista- og menningarstarfsemi á Akureyri séu opnir fyrir samstarfi við hópa og stofnanir innanbæjar jafnt sem utan. Með góðri samvinnu stöndum við öll sterkari að vígi.
Það er ósk mín að Leikfélag Akureyrar fái áfram tækifæri til að eflast, dafna og þróast. Slíkt er mögulegt með því að sníða sér stakk eftir vexti og gæta þess að vera í stöðugu samtali við áhorfendur sína.
Ragnheiður Skúladóttir er leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar