Lyftistöng fyrir Norðurland

Það er ánægjulegt að fara um Svalbarðsströndina þessa dagana. Af og til rjúfa drunurnar frá sprengingunum kyrrðina í Eyjafirði og minna á að langþráðum áfanga er náð og vinna við Vaðlaheiðargöng er loksins hafin fyrir alvöru.

Það er óhjákvæmilegt að framkvæmdir sem þessar valdi einhverjum óþægindum á meðan þær standa yfir, en sprengidrunurnar venjast og minnka eftir því sem verkinu miðar fram. Jarðrask, umferð vinnuvéla og hraðatakmarkanir og óhreinindi á vegunum í nágrenni við framkvæmdasvæðið munu fljótt gleymast að framkvæmdunum loknum.

Samstaða heimamanna

Þessi tímabundnu áhrif eru líka vel þess virði, því verkefnið skapar fjölda starfa á verktímanum, bæði beint og óbeint, og eykur umsvifin á svæðinu umtalsvert.

Hinna jákvæðu áhrifa jarðgangavinnunar á eftir að gæta mun lengur en þeirra neikvæðu, sérstaklega fyrir þá sem starfa við jarðgangagerðina og geta að verkinu loknu bent á mannvirkið og sagt „Þetta gerði ég“. Á vissan hátt munum við öll geta bent á þetta tiltekna mannvirki að verki loknu og eignað okkur hlut í afrekinu því samstaða heimamanna hefur átt stóran þátt í að koma verkefninu af stað og verið nauðsynleg í því andstreymi sem gætt hefur í undirbúningi þess.

Göng í stað fjallvegar

Í mínum huga er engum vafa undirorpið að jarðgöngin munu standa undir væntingum og verða mikil lyftistöng fyrir svæðið okkar. Með tilkomu þeirra munu möguleikar íbúa varðandi atvinnusókn aukast og aðgengi að þjónustu batna verulega. Vaxandi straumur ferðamanna gerir einnig kröfur um bætt vegakerfi og aukið öryggi.

Með tilkomu Vaðlaheiðarganga færist umferðin af erfiðum og hættulegum fjallvegi í skjól og öryggi. Þeim dögum sem ófært er á milli Þingeyjarsveitar og Svalbarðs­strandarhrepps mun væntanlega fækka sem og útköllum björgunarsveitarinnar Týs á Svalbarðsströnd til að losa bíla á Víkurskarði. Umferðin um núverandi þjóðveg í Vaðlaheiðinni mun einnig minnka verulega, hlaupurum, hjólreiðafólki, göngufólki og öðru útisvistarfólki til mikillar gleði.

Ég vil að lokum minna þá sem eiga leið um vinnusvæðið við  að fara varlega og sýna þeim sem þar vinna og öðrum vegfarendum tillitssemi.

Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps

Nýjast