Leikfélag Akureyrar er leikfélag allra landsmanna
Nei, hlutverk okkar er ekki bundið við að setja upp sýningar sem eru aðeins fyrir íbúa Akureyrar, langt í frá. Þótt félagið heiti Leikfélag Akureyrar, er félagið í raun og veru leikfélag allra landsmanna. Hingað kemur fólk úr öllum landshlutum til að sjá uppsetningarnar sem í boði eru hverju sinni. Margt fólk úr nærsveitum kaupir til dæmis árskort og sér þess vegna flestar sýningar félagsins. Ég nefni líka að okkar hlutverk er að tengja félagið við aðra menningarstarfsemi á svæðinu, segir Ragnheiður Skúladóttir leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.
Eru Akureyringar stoltir af félaginu?
Já, það ekki spurning. Ég er alin upp í Reykjavík og hef búið þar alla mína ævi, fyrir utan þrettán ár í Bandaríkjunum. Þegar ég kom hingað til Akureyrar fyrir tveimur árum síðan, fann ég hversu vænt bæjarbúum þykir um leikfélagið sitt. Þá var fjárhagurinn þröngur og bæjarbúum stóð ekki á sama, það var svo greinilegt. Þannig að þessi staðreynd er líka einn af kostum félagsins.