Hannes Óli Ágústsson vekur athygli í áramótaskaupinu um hver áramót í hlutverki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hannes segist ekki líta á sig sem eftirhermu en viðurkennir að gervi hans sem Sigmundur Davíð sé á vissan hátt stökkpallur fyrir sig sem leikara. Hann lék Sigmund fyrst í áramótaskaupinu árið 2009.
"Leikstjóra Skaupsins fannst ég tilvalinn í að leika Sigmund og ég var boðaður í prufur. Ég fór heim og lá yfir upptökum af fréttum um Sigmund Davíð til að ná svipnum og röddinni. Mér fannst ég ekkert vera að ná honum vel fyrst í stað en svo fékk ég að horfa á sjálfan mig í hlutverkinu og það kom mér hálfpartinn á óvart hvað ég náði honum vel. Ég hef gaman af því að leika Sigmund, hann er orðinn tamur mér og ég get hent í hann fyrirvaralaust, segir Hannes.
Ítarlega er rætt við Hannes Óla í nýjustu prentútgáfu Vikudags.