Hátíð allra bæjarbúa

"Það er um að gera að klæða sig eftir veðri og njóta dagskránar," segir Hulda Sif. Mynd/Þröstur Ernir.

„Það er allt að verða klárt og ég bíð spennt eftir að dagskráin hefjist,“ segir Hulda Sif Hermannsdóttir, verkefnastjóri hjá Akureyrarstofu, sem ásamt Jóni Gunnari Þórðarsyni leikstjóra skipuleggur Akureyrarvökuna sem fram fer um helgina. Þema Akureyrarvöku í ár er fjölmenning. Rúmlega sextíu þjóðerni byggja bæinn og mun fjölmenning verða rauður þráður í gegnum alla dagskrána. „Við viljum búa í fordómalausu samfélagi líkt og gyðjan Akureyrarvaka boðar, því fannst okkur tilvalið að fjölmenning yrði þema hátíðarinnar í ár,“ segir Hulda Sif.

Duld yfir lokaatriðinu

Engin flugeldasýning verður í ár en þrátt fyrir það verður hátíðinni lokað með pompi og prakt að sögn Huldu. Hún fæst þó ekki til að segja nánar um hvað það verður. „Ég get sagt að það verður ákveðið ævintýri, en meira segi ég ekki. Fólk verður einfaldlega að koma og sjá!“ segir hún.

Aðspurð segir Hulda að hátíðin hafi verið vel sótt undanfarin ár. „Það gildir bæði um heimafólk og aðra gesti. Þetta er auðvitað afmælishátíð bæjarins og Akureyri fagnar nú 151 árs afmæli sínu. Hátíðin er fyrir löngu búinn að skapa sér ákveðinn sess í hjörtum Akureyringa. Þetta er hátíð okkar allra,“ segir Hulda.

throstur@vikudagur.is

Nánar er rætt við Huldu í prentútgáfu Vikudags.

Nýjast