Handbolti: Akureyri í þriðja sæti

Akureyri sigraði Fram í efstu deildinni í handknattleik í KA-heimilinu í dag. Um leikinn segir ÁS á heimasíðu Akureyrar handboltafélags:
,,Akureyri innbyrti dýrmæt stig með sigri á Íslandsmeisturum Fram í KA-heimilinu í dag. Leikurinn var gríðarlega skemmtilegur á að horfa. Í fyrri hálfleik var jafnt á flestum tölum til að byrja með upp í stöðuna 5-5 en þá náði Fram mest fjögurra marka forystu en með magnaðri baráttu náðu okkar menn að jafna leikinn og var staðan jöfn 16-16 í hálfleik.

Leikmenn Akureyrar komu af miklum krafti í seinni hálfleikinn og tóku forystuna sem varð mest þrjú mörk þar til kviknaði á Frömurum sem náðu að jafna og komast marki yfir um miðbik seinni hálfleiks. Þá var okkar mönnum hreinlega nóg boðið og skelltu í lás og áttu leikmenn Fram einfaldlega ekki möguleika í seinni hluta hálfleiksins. Með gríðarlegri baráttu í vörninni og frábærri markvörslu náðu okkar menn öruggri forystu sem greinilega átti ekki að láta af hendi og lauk leiknum með frábærum fimm marka sigri 33-28.

Allt liðið á hrós skilið fyrir frábæra baráttu og leikgleði sem skein af liðinu í dag.

Með þessum sigri sest Akureyri í 3. sæti deildarinnar og mun verða þar um hríð því að næstu leikir í deildinni eru ekki fyrr en 11. febrúar en þá verður 12. umferðin leikin."

Myndirnar tók Þórir Ó. Tryggvason.

Sjá www.akureyri-hand.is

Nýjast