Fyrir um fjórum árum tók ég þá ákvörðun eftir talsverða hvatningu að gefa kost á mér sem bæjarfulltrúarefni fyrir Akureyri. Þá ákvörðun tók ég að vel ígrunduðu máli og sé ekki eftir því enda hafa málefni Akureyrarbæjar verið mér afar hugleikin. Málefni bæjarins höfðu verið mér ofarlega í huga löngu áður en ég tók þá ákvörðun fyrir fjórum árum síðan. Sá áhugi hefur ekki dvínað heldur þvert á móti og því var það ekki erfið ákvörðun að gefa kost á mér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Á yfirstandandi kjörtímabili hef ég verið varabæjarfulltrúi og unnið náið með Ólafi Jónssyni, bæjarfulltrúa og oddvita flokksins hér í bæ. Í haust tilkynnti Ólafur eftir nokkurra ára óeigingjarnt og ötult starf fyrir bæinn að hann myndi ekki óska eftir endurkjöri. Mikil eftirsjá verður af honum eins og öllum góðum mönnum sem ber að þakka fyrir vel unnin störf á vettvangi sveitarstjórnarmála.
Með beinni aðkomu að málefnum Akureyrarbæjar hef ég átt greiðari leið en áður að tala fyrir þeim málefnum sem ég tel mikilvæg fyrir bæinn. Á þessum stutta tíma sem ég hef gegnt sem varabæjarfulltrúi hef ég lagt mikla áherslu á samgöngubætur m.a.:
Þessum baráttumálum sem snúa að samgöngubótum vill ég áfram vinna að enda styðja þau við með beinum eða óbeinum hætti brýn hagsmunamál bæjarsins s.s. uppbyggingu atvinnulífsins, ekki síst á sviði ferðaþjónustu.
Þó svo að þessi málefni hafa verið áberandi sem helstu baráttumál mín á yfirstandandi kjörtímabili er ekki svo að ég telji þau brýnni en aðrir málaflokkar. Á næstu vikum mun ég kynna helstu áherslur mínar á sviði félagsmála, menntamála, atvinnumála, öldrunar- og heilbrigðismála sem og þeim málefnum sem snúa að rekstri bæjarins.
Það er tilhlökkunarefni að fá tækifæri til að eiga samtal við kjósendur í komandi kosningum um málefni bæjarsins. Ég mun leggja mig fram við að koma áherslum mínum á framfæri í þessum málaflokkum sem og öðrum á næstu vikum.
Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri flokksins.