Fleiri skemmtiferðaskip á næsta ári, en færri farþegar
Tekjur Hafnasamlags Norðurlands vegna komu skemmtiferðaskipa á þessu ári verða um 120 milljónir króna, sem er um fjórðungur af veltu samlagsins. Pétur Ólafsson skrifstofustjóri segir að tekjurnar hafi aukist ár frá ári og skipti miklu máli í rekstrinum.
Það segir sig sjálft, þegar tekjurnar eru svona stór hluti af veltunni. Okkur hefur gengið bærilega að markaðssetja Akureyri, enda hefur komum skemmtiferðaskipa fjölgað ár frá ári. Í ár verða þær 63 og þær verða enn fleiri næsta sumar. Eins og staðan er núna er ekki ólíklega að skipakomurnar verði um sjötíu talsins.
72 þúsund farþegar í sumar
Aðeins fjögur skemmtiferðaskip eiga eftir að koma til Akureyrar í sumar. Farþegar sumarsins eru um 72 þúsund, en ég er ekki frá því að þeir verði eitthvað færri á næasta ári, jafnvel þótt skipum fjölgi nokkuð. Það eru sem sagt ekki eins mörg stór skip væntanleg á næsta ári og á þessu ári. Engu að síður lítur dæmið vel út, segir Pétur Ólafsson.
karleskil@vikudagur.is