Erlendir ökumenn á hraðferð

Umferð í kringum Akureyri hefur gengið vel í sumar að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri og engin alvarleg slys orðið á fólki. Talsvert hefur þó verið um hraðakstur í umdæmi lögreglunnar, þá sér í lagi meðal erlendra ökumanna.

„Íslenskir ökumenn eru frekar meðvitaðir um hvað fylgir því að vera tekinn fyrir of hraðan akstur. Útlendingarnir eru eflaust vanari því að mega keyra greitt um þjóðvegi,“ segir varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri.

Tveir árekstrar hafa orðið við brúna á Leiruvegi með stuttu millibili, en í báðum tilvikum má rekja slysin til annarlegs ástands ökumanna.

„Það er ástæða til að brýna fyrir ökumönnum að fara varlega þegar þeir nálgast brýr, sérstaklega ef fólk er með eitthvað í eftirdragi eins og fellihýsi. Við brýr er yfirleitt annað vindstreymi og önnur mótstaða. Þá eru aðstæður sérstaklega varasamar í beygjum,“ segir varðstjórinn.

throstur@vikudagur.is

Nýjast