Draugaslóð Akureyrarvöku
Draugar, draugahús, dularfull hljóð, drungalegir tónar og dulúðleg stemning, er meðal annars það sem gestir og gangandi munu upplifa frá Samkomuhúsinu og inneftir Innbænum, elsta hluta bæjarins, næstkomandi föstudagskvöld í Draugaslóð Akureyrarvöku.
Í ár hefst slóðin í Samkomuhúsinu sem Leikfélag Akureyrar hefur breytt í draugahús. Þar munu gestir ferðast um rangala leikhússins, hitta ýmsar kynjaverur og fá reimleikann beint í æð. Tilkomumikil gandreið á vegum hestamannafélagsins Léttis verður á flötinni neðan við húsið
Draugaslóðin er að þessu sinni í umsjón Akureyrarvöku í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og Leikfélag Akureyrar.
Vert er að benda á að þetta kyngimagnaða kvöld frá Samkomuhúsinu og Innbænum getur skotið skelk í bringu ungra barna og viðkvæmra sála.