Dalsbraut formlega opnuð

Syðri hluti Dalsbrautar á Akureyri hefur nú formlega verið opnaður fyrir umferð. Það var Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar, sem klippti á borða við ný gangbrautarljós á móts við Lundarskóla en áður sagði Oddur Helgi Halldórsson, formaður framkvæmdaráðs, nokkur orð.
 
Lengi hefur verið gert ráð fyrir lagningu Dalsbrautar en ekki hefur ríkt full sátt um framkvæmdina. Gatan liggur um íbúðahverfi og austan Lundarskóla og við framkvæmdirnar hefur allt kapp verið lagt á að tryggja öryggi gangandi vegfarenda. Þau nýmæli eru til að mynda á þessum hluta Dalsbrautar að gangbrautarljós eru hraðastýrð, þ.e.a.s. ef ökutæki er ekið á meira en 30 km hraða þá mætir ökumaður sjálfkrafa rauðu ljósi. Þónokkur hópur fólks var við athöfnina og eftir að Geir Kristinn hafði klippt á borðann, settust viðstaddir bæjarfulltrúar inn í glæsilegar bifreiðar Fornbílaklúbbs Akureyrar og var ekið sem leið liggur suður Dalsbrautina að Miðhúsabraut og aftur til baka að Lundarskóla, segir í frétt frá Akureyrarbæ.
 
 
 

Nýjast