Klukkan 6:30 í morgun var tilkynnt um að aurskriða hefði komið úr fjallinu ofan við bæinn Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit. Skriðan lenti ekki á húsum. 20 mínútum seinna barst tilkynning um að önnur aurskriða hefði fallið á sama stað og nú lent á íbúðarhúsinu og útihúsum. Engin meiðsli urðu á fólki. Í þetta skiptið fór skriðan yfir veginn á allt að 100 metra kafla, að því er talið er.
Ábúendur, hjón og eitt barn, komust á dráttarvél yfir skriðuna og í öruggt skjól á bænum Hrísum. Íbúar á bæjum sunnan við Grænuhlíð hafa verið varaðir við en skriðusérfræðingur telur þó ekki miklar líkur á skriðuföllum þar.Ekki er vitað um afdrif nautgripa og fjár í húsum við Grænuhlíð en rafmagn fór a.m.k. af fjósinu. Ekki er vitað hversu mikið tjón hefur orðið á mannvirkjum.
Kl. 07:45 var tilkynnt um að aurskriða hefði fallið á veginn norðan við Kolgrímustaði í Eyjafjarðarsveit. Skriðan lokar veginum en lenti ekki á öðrum mannvirkjum. Þá er vitað að aurskriða féll á veginn norðan við bæinn Stóradal og er vegurinn ófær.
Lögregla hefur lokað þjóðveginum til suðurs við Saurbæ í Eyjafjarðarsveit. Í birtingu verða aðstæður kannaðar á vettvangi þessara skriðufalla með skriðusérfræðingi og þá tekin ákvörðun um frekari aðgerðir og opnun vega.
Þá er vegurinn um Hörgárdal ófær við Skriðu vegna skriðufalla.