Curver Thoroddsen opnar sýninguna Verk að vinna / Paperwork í Ketilhúsinu á Akureyri á morgun. Þar stendur listamaðurinn fyrir raunveruleikagjörningi í anda fyrri verka sinna þar sem daglegt líf hans og listsköpun skarast.
Curver lokar sig af í heilan mánuð í Ketilhúsinu og fer allsnakinn og berskjaldaður í gegnum tugi ára af uppsöfnuðum blöðum, pappír, bréfsefni, skjölum og öðru tilfallandi efni og grisjar úr glundroðanum. Þessi persónulega flokkun og endurskoðun helst í hendur við eldri verk Curvers þar sem að hann hefur m.a. sett upp kompusölu í Listasafni Íslands, tekið íbúð sína í gegn í sjónvarpsþættinum Innlit/Útlit, breytt Nýlistasafninu í barnaleiksvæði og selt lundapizzur í Bjargtangavita.
Á efri hæð Ketilhússins verður samhliða gjörningnum sýning á úrvali filmugjörninga og vídeóverka Curvers frá síðustu árum.