Aldrei verið fleiri í húsgagnasmíði

Tólf annars árs nemar í byggingadeild VMA stunda nú nám í húsgagnasmíði og hafa þeir aldrei verið  fleiri í tæplega þrjátíu ára sögu skólans. Þar af eru fimm konur.

Þessir nemendur hófu nám í byggingadeild VMA sl. haust og því er þetta þriðja önnin þeirra í deildinni. „Námið í húsgagnasmíði tekur fimm annir, þar af eru þrjár sameiginlegar með nemendum í húsasmíði,“ segir Halldór Torfi Torfason, brautarstjóri byggingagreina í VMA.

„Þessi fjöldi í húsgagnasmíði er algjört einsdæmi hér í skólanum. Í þessum hópi er bæði um að ræða fullorðið fólk og einnig nemendur sem hafa komið hingað að loknum grunnskóla. Mér heyrist á nemendunum að sumir þeirra stefni að því að starfa við þessa iðngrein en aðrir eru m.a. að horfa til frekara náms í hönnun,“ segir Halldór Torfi í viðtali á vef VMA og bætir við að þar til þessi sprenging varð í aðsókn í húsgagnasmíðina hafi einn til í mesta lagi fjórir nemendur valið húsgagnasmíðina á ári.

Nýjast