Akureyringur vinnur bresk útvarpsverðlaun

Sigurður Þorri Gunnarsson.
Sigurður Þorri Gunnarsson.

Sigurður Þorri Gunnarsson, 24 ára Akureyringur, bar sigur úr býtum í bresku útvarpsverðlanunum British Public Radio Award í flokki stuttra heimildarþátta. Sigurður var tilnefndur fyrir tvo útvarpsþætti í flokknum en á annað hundrað þátta voru sendir inn. Fjórir voru tilnefndir, þar af báðir þættirnir hans Sigurðar. Vinningsþátturinn heitir A Place To Belong eða Staður sem maður tilheyrir.

Þátturinn fjallar um kór hinsegin fólks í norð-austur Bretlandi en þar veltir Sigurður fyrir sér hvað dregur fólk saman í söng. Báðir þættirnir eru skólaverkefni hjá Sigurði sem stundar mastersnám í útvarpsfræðum í Sunderland í Englandi.

„Ég bjóst ekki við neinu þegar ég sendi þættina inn  og þetta kom mér virkilega á óvart. Það eru miklar kröfur í Bretlandi í þessum fræðum og t.d. eru dómararnir margir hverjir starfsfólk hjá BBC. Þeir eru mjög virtir,“ segir Sigurður.

Hann útskrifast frá Univercity Of Sunderland í nóvember og segir óvíst hvað hann taki sér fyrir hendur að námi loknu. „Ég ætla að byrja á því að koma heim í nokkrar vikur. Þetta hefur verið mikil törn, sérstaklega núna yfir sumartímann. Svo ætla ég bara að skoða ýmsa möguleika,“ segir hann.

Fyrir áhugasama er hægt nálgast báða þættina hans Sigurðar á vefsíðu hans www.radiosiggi.com

 

throstur@vikudagur.is

Nýjast