95. þáttur 29. ágúst 2013

Fífill í haga

Auðlegð íslenskrar tungu er víða að finna: í örnefnum, spakmælum, málsháttum og orðatiltækjum - sem endurspegla á vissan hátt „heimspeki alþýðunnar“. Auðlegð tungunnar birtist einnig í blómanöfnum og verður þeim gerð skil síðar.

Jónas Hallgrímsson, listaskáldið góða, lauk prófi í náttúruvísindum frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1838 með jarðfræði og steinafræði sem sérgrein. Jónas ferðaðist um Ísland fimm sumur og þekkti landið betur en aðrir, hann samdi Íslandslýsingu, skrifaði dagbækur og bréf og auk þess sem hann birti fræðigreinar í vísindaritum sem bera vitni þekkingar og lærdóms. Þá orti hann ljóð sem eiga engan sinn líka. Hann var því ekki drykkfelldur útigangsmaður á biluðum skóm á flórhellunum í Kaupinhafn, eins og Halldór Laxness kemst að orði í Alþýðubókinni.

Víða í ljóðum sínum talar Jónasar Hallgrímssonar um blómin á jörðu - og blómin í brjóstum okkar:

 

Því meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er að víst að bestu blómin gróa

í brjóstum sem að gera fundið til.

 

Í Hulduljóðum talar hann við blómin, sem hann nefnir smávini:

Smávinir fagrir, foldarskart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, vér mættum margt

muna hvurt öðru að segja frá.

Prýði þið lengi landi það

sem lifandi guð hefir fundið stað

ástarsælan, því ástin hans

alls staða fyllir þarfir manns.

 

Á öðrum stað í Hulduljóðum segir:

 

Hann svipast um, nú sefur allt í landi,

svæft hefur móðir börnin stór og smá,

fífil í haga, hrafn á klettabandi,

hraustan á dúni, veikan fjölum á.

 

Þarna nefnir hann fífil, eftirlætisblóm sitt og eins konar einkennisblóm eins og fram kemur í Dalvísu:

 

Fífilbrekka, gróin grund,

grösug hlíð með berjalautum,

flóatetur, fífusund,

fífilbrekka, smáragrund,

yður hjá ég alla stund

uni best í sæld og þrautum,

fífilbrekka, gróin grund,

grösug hlíð með berjalautum.

 

Orðið fífill er gamalt í málinu, bæði sem nafn á blómi og sem viðurnefni. Merking orðsins er óviss en orðið fífill er talið skylt orðinu fimbul, sem merkir „stór“ eða „mikill“, sbr. fimbulvetur, og orðinu fífl, sem upphaflega merkti „jötunn“ eða „risi“. Hefur þess verið getið til að stærð og lögun biðukollunnar, þessa undraverks sköpunarinnar, liggi að baki merkingu orðins fífill - „hinn stórhöfða“.

 

Fleiri skáld en Jónas yrkja um fífilinn. Eggert Ólafsson segir í kvæðinu Ísland:

 

Ísland segir sama

sorg og elli mædd,

flest allt að vill ama,

enginn fær það bætt.

Rétt er ég orðin ráðalaus,

fegri man ég fífil minn,

fæsta biðla eg kaus.

 

Bjarni Gissurarson segir í kvæðinu Sólarsýn: „Fagur sprettur upp fífill í túnum“ - og Jón Thoroddsen segir um Þuríði gömlu í skáldsögunni Manni og konu að hún væri minnst metin þar á bæ og „mætti muna fífil sinn fegri“. Fífillinn er því ekki aðeins fagurt blóm heldur tákn manndóms, dugnaðar og virðingar.

Tryggvi Gíslason

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast