105. þáttur 7. nóvember 2013
Eignarfall og fleira smálegt
Eignarfall er merkilegt fall. Í flestum tungumálum er heiti þess dregið af latneska orðinu genetivus, svo sem á ensku: genetive, á dönsku: genitiv og á þýsku: Genitiv. Að vísu er á þýsku einnig til heitið Wessfall: hversfall, sem er hugsað á svipaðan hátt og íslenska málfræðiheitið eignarfall. Latneska lýsingarorðið genetivus merkir innfæddur og er skylt nafnorðinu genus: kyn, fjölskylda eða ætt. Latneska málfræðiheitið gefur því til kynna að um sé að ræða að eitthvað tilheyri eða sé eign merkingarmiðsins sem eignarfallsorðið vísar til: hattur mannsins, auga barnsins, hár konunnar.
Þetta var fyrsta vers. Svo kemur annað vers - og það er ekki alveg eins, en fjallar um eignarfall nokkurra orða. Fyrst er það eignarfall fleirtölu veikra kvenkynsorða, svo kallaðra on-stofna, orða eins og saga, tunga og lilja. Meginreglan er sú, að eignarfall fleirtölu þessara orða hefur venjulega endinguna na: saga/sagna; tunga/tungna. Hins vegar eru nokkur orð úr þessum flokki veikra kvenkynsorða, on-stofna, sem ekki taka þessa endingu, s.s. orðin amma, bára, fiðla, hrífa, hryssa, karfa, kerra, vera, stofa og þerra.
Eftir að hafa lesið í Málfræði Björns Guðfinnssonar, sem fyrst kom út árið 1937, að meginreglan væri sú, að eignarfall fleirtölu veikra kvenkynsorða endi á na, settu þeir Óskar heitinn Halldórsson cand. mag., dósent við Háskóla Íslands, og Bjarni heitinn Vilhjálmsson cand. mag., fyrrum þjóðskjalavörður, saman þessa ferskeytlu:
Víst mun þerrna brúkið breiða
barna og kerrna smiða fró,
er í sperrna gota greiða
gránstóð verna úr höfuðskóg.
Efni vísunnar er þetta: Sannarlega munu mikil not fyrir þerrur (þerrna brúkið breiða) gleðja eða gagnast smiðum þeim, er smíða börur og kerrur (barna og kerna smiða fró), þegar þeir í húsinu (sperrna gota) greiða grátt lúsarstóðið (gránstóð verna) úr hárinu (höfuðskóg). Vísuna ortu tvímenningarnir sér og öðrum til gamans, en ef til vill einnig til þess að benda á hversu flókið beygingarmál íslenskan er, því að í Málfræði Björns Guðfinnssonar , sem kennd var mörgum kynslóðum í skólum landsins, stendur: Ef veik kvenkynsorð, sem enda á -ja í nefnifalli, hafa g eða k næst á undan j-inu enda þau í eignafalli ft. venjulega á -na (bylgna, kirkna), annars beygjast þau eins og lilja.
Það er því ekki að furða þótt dr. Halldór Halldórsson, fyrrum prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og áður kennari við Menntaskólann á Akureyri, segi: oft er sneitt hjá því að nota ef. flt. af ?n-stofnum og ósjaldan er n sleppt án þess það geti talist rangt. Vegir málfræðinnar eru því vandrataðir.
Að lokum er vert að geta þess, að eignarfall eintölu af orðunum vetur er vetrar, sbr. vetrarþoka, og af orðinu lækur er lækjar, sbr. Lækjargata, og til þess að því sé enn haldið til haga: betra er að tala um að líta til himins en kíkja til himins, líta inn til vinar síns en að segja kíkja inn til vinar síns að ekki sé talað um að líta í skemmtilega bók en að segja kíkja í skemmtilega bók.
Tryggvi Gíslason