Leikhúsgagnrýni (Tæring): Alltumlykjandi leikhúsupplifun

Leiksýningin er óhefðbundin að því leitinu til að áhorfendur eru þátttakendur í sýningunni.
Leiksýningin er óhefðbundin að því leitinu til að áhorfendur eru þátttakendur í sýningunni.

Sviðslistaverkið Tæring er nú í sýningu á Hælinu, setri um sögu Berklanna. Í huga konu sem fædd er á 9. áratug síðustu aldar eru berklar eitthvað svo órafjarri, það er þó ekki raunin enda var sjúkdómurinn viðloðandi íslenskt samfélag langt fram eftir 20. öldinni.

 Síðastliðið laugardagskvöld lagði undirrituð leið sína í Kristnes, úti var dimmt og rigningarhvassviðri reif í bílinn á leiðinni. Að koma inn úr veðurofsanum og inn í birtuna og hlýjuna á kaffihúsi Hælisins var eins og að fara aftur í tímann og ganga inn í miðja síðustu öld. Útlit kaffihússins og öll umgjörð þess er eins og klippt út úr 5. áratugnum og andrúmsloftið setur tóninn skemmtilega fyrir sýninguna. Af sóttvarnarástæðum eru einungis 10 áhorfendur á hverri sýningu, mín skoðun er þó sú að fleiri áhorfendur myndu rýra upplifunina og er því fyllilega sátt við þessar fjöldatakmarkanir.

Leiksýningin er óhefðbundin að því leitinu til að áhorfendur eru þátttakendur í sýningunni, í stað þess að sitja “aðgerðarlaus” úti í sal eru áhorfendur í hlutverki nýrra starfsmanna sem fá leiðsögn um hælið og skyggnast þannig inn í heim sjúklinganna.

Verkið sjálft hefst utandyra þar sem yfirhjúkrunarkona staðarins tekur á móti hópnum og býður þau velkomin til starfa. Í gluggum má sjá forvitna sjúklinga gægjast milli gardína í von um að líta nýju starfsmennina augum. Þegar inn er komið eru áhorfendur leiddir inn í vistarverur sjúklinga, í sumum herbergjum tala sjúklingarnir beint til áhorfenda, horfa í augu þeirra og segja frá fjölskyldum sínum og söknuði af mikilli einlægni. Annars staðar eru áhorfendur eins og fluga á vegg og fylgjast með sjúklingum eiga samskipti sín á milli, skrifa ástvinum bréf og stytta sér stundir. Sjúklingarnir eru á misjöfnum stigum sjúkdómsins, sumir nýkomnir og bjartsýnir á framtíðina en aðrir lengra leiddir og virðast hafa sætt sig við hlutskipti sitt. Falleg vinasambönd myndast þeirra á  milli og stundum er glatt á hjalla en þegar síst má búast við minnir sjúkdómurinn óþægilega á sig.

Hljóð- og vídeóverk setja sterkan svip á sýninguna, skapa stundum þá tálsýn að húsið sé fullt af fólki og örva mismunandi skilningarvit. Sum atriði byggjast aðeins á því sem áhorfandinn heyrir en getur ekki séð, meðan önnur eru hljóðlaus og byggja eingöngu á því sem áhorfandinn sér, til að mynda út um glugga.

Líkt og kaffihúsið er sýningarrými Hælisins  innréttað eins og um miðja síðustu öld, það hefur því sterk áhrif að ganga þröngan gang frá sjúkrastofum yfir í setustofuna og hlusta á ljúfa harmoníumtóna. Veggfóðrið, húsgögnin, búningar leikaranna og óaðfinnanlegar hárgreiðslur skapa þannig ótrúlega sannfærandi mynd gamalla tíma. Sömu áhrifum hefði ekki verið hægt að ná fram á hefðbundnu sviði. Lítil rýmin gera það þó einnig að verkum að sumir áhorfendur kunna að missa af einhverjum atriðum í sýningunni, hvort það er galli eða ekki skal ég ekki segja. Það er kannski viss sjarmi í því að áhorfendur sömu sýningar skuli fá ólíka upplifun og það væri vissulega áhugavert að sjá sýninguna aftur síðar og vita hvort áhrifin séu önnur.

Verkið er átakanlegt og fallegt en um fram allt mannlegt. Það byggir að miklu leyti á bréfum sjúklinga en á sýningunni má einmitt heyra leikarana lesa upp úr raunverulegum bréfum sjúklinga sem þar dvöldust. Það að lesa upp raunveruleg orð fólks til ástvina sinni gefur verkinu ákveðna dýpt og það er átakanlegt að hugsa til þess að sumir hafi jafnvel þurft að vera fjarri fjölskyldum sínum árum saman, misst af uppvexti barna og merkilegum tímamótum.

Sögur sjúklinganna höfðu mismikil áhrif á mig, sumar snertu mig djúpt meðan aðrar höfðu minni áhrif. Verandi foreldri er þó kannski ekki undarlegt að ég skuli hafa tengt mest við sögu ungu móðurinnar.

Hliðstæðurnar við faraldurinn sem við erum nú að ganga í gegnum eru töluverðar. Smithætta, einangrun og sóttvarnir eru orð sem okkur er orðið tamt að nota í daglegu tali og það er áhugavert að hugsa til þess að áhrif og upplifun af þessu verki hefðu verið allt önnur ef það hefði verið sýnt fyrir aðeins ári síðan. Óvænt gestastjarna sýningarinnar, sjálfur Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir, les eitt hljóðverkið sem ýtir enn frekar undir þessi hugrenningartengsl.

Persónulega hefði mér þótt gaman að fá örlítið meiri upplýsingar um sjúkdóminn, fyrir aðila sem hefur litla þekkingu á sögu berkla á Íslandi getur ýmislegt í sýningunni farið fyrir ofan garð og neðan. Það verður þó að teljast jákvætt að mig þyrsti í meira og ég fann í kjölfarið til löngunnar til að afla mér meiri þekkingar um sögu berkla á Íslandi.

Tæring er öðruvísi leikhúsupplifun sem ég mæli hiklaust með. Þröngir gangar og lítil rými gera það að verkum að áhorfandinn upplifir mikla nálægð við sjúklingana, eflaust er það mörgum okkar eðlislægt að vera hikandi og varfærin í slíkum aðstæðum en til þess að njóta verksins sem best er farsælast að skilja feimnina eftir fyrir utan, vera óhrædd við að stíga inn í herbergin og leyfa verkinu að umlykja sig.

-Hrönn Björgvinsdóttir, verkefnastjóri ungmennastarfs á Amtsbókasafninu.

 


Nýjast