Akureyrarbær tekur vel á móti erlendum börnum

Karl Frímannsson.
Karl Frímannsson.

Að undanförnu hafa tvær greinar birst hér í Vikudegi um málefni grunnskóla Akureyrarbæjar eftir Helgu Dögg Sverrisdóttur kennara í Síðuskóla og forsvarsmann Bandalags kennara á Norðurlandi eystra. Því miður eru þar rangfærslur af því taginu að bregðast verður við.

Þar er því haldið fram að erlendir nemendur fái ekki stuðning í skólum bæjarins og látið að því liggja að bæjaryfirvöld hafi neitað óskum um að kennarar fái greidd laun til að sinna þessum börnum. Frá árinu 2012 hefur kennsluráðgjafi verið í fullu starfi hjá fræðslusviði bæjarins sem sinnir eingöngu ráðgjöf við grunnskólakennara og annað fagfólk sem hefur með kennslu erlendra barna að gera. Hluti af hans starfi felst einnig í því að kenna, þó mismikið sé í hverjum skóla.

Því til viðbótar eru 89 kennslustundir á hverri einustu viku ætlaðar til kennslu erlendra barna í grunnskólum bæjarins. Í heildina eru því um 4,4 stöðugildi sem eingöngu er ætlað að koma til móts við þarfir erlendra barna. Skipulag og framkvæmd kennslunnar er í höndum hvers skóla svo að nýting tímanna verði sem best og sveigjanleiki kennslufyrirkomulags henti í hverju tilviki. Fullyrðingu Helgu um að kjörnir fulltrúar og forsvarsmenn bæjarins hafi tekið ákvörðun um að aðstoða ekki börn af erlendum uppruna verður því að skoða í þessu ljósi.

Helga heldur því fram að börn sem ekki hafa formlega greiningu (væntanlega vegna fötlunar, einhverfu, ADHD, námsörðugleika ofl. af því tagi) eigi ekki rétt á stuðningi í námi. Skólaárið 2017-2018 var úthlutað sérstaklega kennslumagni umfram almenna kennslu vegna 370 barna í öllum grunnskólum Akureyrar. Þar af var úthlutað vegna 203 barna sem ekki voru með neinar greiningar. Meirihluti kennsluframlags sem er umfram almenna úthlutun er því vegna barna sem ekki hafa formlegar greiningar.

Í ljósi alþjóðlegs samanburðar þá er vert að nefna að mönnun í íslenskum grunnskólum er hvað mest meðal OECD-ríkjanna. Hér eru tæplega 10 nemendur á hvert stöðugildi í kennslu á meðan meðaltalið innan OECD er um 16 nemendur. Með það í huga má segja að mönnun í grunnskólum Akureyrar sé góð. Við eigum að getað komið til móts við þarfir barna þrátt fyrir að skyldum skólasamfélagsins hafi fjölgað á s.l. 10 árum. Þeirri þróun höfum við fylgt með fjölgun starfsfólks þó alltaf megi gera betur. Skólastarf er og verður í stöðugri þróun og eru bæjaryfirvöld opin fyrir málefnalegri gagnrýni til að gera enn betur en nú er gert.

-Höfundur er fræðslustjóri Akureyrarbæjar.


Nýjast