„Við eigum hér á Akureyri einn yfirlögguþjón/hann gengur greitt um göturnar og greyið heitir Jón”

Mynd/ Minjasafnið á Akureyri.
Mynd/ Minjasafnið á Akureyri.

Ingólfur Sverrisson skrifar

Eyrarpúki

Fyrsta söngæfingin fyrir öskudag árið 1954 var boðuð í bílskúrnum bak við Ránargötu 2 þar sem foringjar okkar á norðureyrinni – Habbi og Öddi – réðu ríkjum. Skúrinn fylltist af strákum úr götunni og nágrenni enda engar fjöldatakmarkanir.  Rifjaðist þá upp að síðustu öskudaga var flokkurinn svo fjölmennur að hann komst ekki fyrir í minni búðunum og varð hluti hans að syngja úti á stéttum fyrir framan.  Nú þegar 42 voru mættir var öllum ljóst að eitthvað varð að gera í málinu;  flokkurinn einfaldlega of stór. Ákveðið var að setja nefnd í málið eins og fullorðna fólkið gerði.  Gat þá fyrsta æfingin hafist og sungið af hjartans list svo undir tók. Samkvæmt óstaðfestum heimildum munu músíkalskar konur í næstu húsum hafa komist við að heyra þennan undurfagra söng!

Nefndin lagði til að skipta flokknum í tvennt þannig að aðeins 21 voru í hvoru liði.  Þá ættu allir að komast inn í búðirnar og afraksturinn trúlega drýgri.  Svo rann öskudagurinn upp. Eftir að hafa slegið köttinn úr tunnunni fyrir allar aldir og síðan arkað upp á verksmiðjur og sungið þar fyrir fólkið fórum við fylktu liði í búðir miðbæjarins um leið og þær opnuðu.  Þegar leið á morguninn fór flokkurinn upp á bæjarskrifstofurnar á annarri hæð Landsbankahússins til að gleðja fólkið þar með söng og skrautsýningu. Það fór þó á aðra leið og dróg til nokkurra tíðinda.

Einn söngvanna á dagskrá okkar byrjaði svona: „Við eigum hér á Akureyri einn yfirlögguþjón/hann gengur greitt um göturnar og greyið heitir Jón.” Af siðferðisástæðum verður ekki rakið meira úr þessum kveðskap enda var hann heldur nöturlegur í garð ástsæls yfirlögregluþjóns sem hét Jón Benediktsson og hinn mesti sómamaður.  Við vorum rétt byrjaðir að kyrja þennan ófögnuð þegar Jón Norðfjörð bæjargjaldkeri og leikari spratt upp úr sæti sínu, baðaði út höndum og hrópaði til okkar að hætta þessu góli og hypja okkur út hið snarasta. Hér yrði ekki farið með slíkan óþverra um vammlausan mann.  Út fórum við sneypulegir með skottið á milli fótanna og höfðum vit á að taka þennan níðkveðskap af söngskránni og sungum hann aldrei aftur. Áfram var haldið og sungið og trallað um allan bæ. Sælgæti safnaðist í stóran poka og einnig töluvert af aurum í annan minni. Leið svo dagurinn í þessu stússi út um allan bæ.

Síðdegis var öllu sælgæti hvolft á eldhúsborðið í Ránargötu 2 og skipt upp í 42 bréfpoka sem hverjum var afhent með kurt og pí. Hófst þá ofsafengið sælgætisát sem þolir engan samjöfnuð í gjörvallri gotteríssögu landsins. Þvílík uppgrip gerðust aðeins á öskudegi enda eins gott því mörg grundvallarlíffæri okkar eru ekki hönnuð fyrir slíkt yfirgengilegt sykurálag.  Þá var eftir að ráðstafa peningunum sem söfnuðust.  Í þetta skipti var ákveðið að leigja rútubíl til lystireisu alla leið suður í Kristnes. Þetta var mikill viðburður og eftirminnilegur enda ekki farið í bíltúr á hverjum degi og það í svona stórum bíl með kátum félögum og allt yfirfullt af girnilegu slikkeríi. Á þessari stundu var ég sannfærður um að líf mitt væri í hádegisstað!

Ingólfur Sverrisson

   

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast