Litskrúðug og holl heilbrigðisþjónusta

Anna Dúa Kristjánsdóttir
Anna Dúa Kristjánsdóttir

Endurhæfing er orðið. Endurhæfing er sú þjónusta sem efla skal, segir ráðafólk. Endurhæfing.

 Mér finnst þetta fallegt orð og fallegt að það skuli taka svo stóran sess í okkar heilbrigðiskerfi sem það og gerir og fallegt að það séu svo margir og fjölbreyttir sérfræðingar um land allt tilbúnir til að bjóða sína þjónustu undir merkjum endurhæfingar. Það er ákveðið stolt falið í því að fara í endurhæfingu, samanber vanmáttinn í því að viðurkenna sig veikan og þiggja þjónustu svo sem innlögn og lyf í skömmtun og sjúkradagpeninga. Betra að geta reist sig við um leið og maður dettur og fá til þess hvatningu og viðeigandi stuðning, jafnvel hafa gaman af því um leið.

 En hvað er viðeigandi stuðningur, hvatning, meðferð? Það er ekki það sama fyrir alla.

En hver hefur efni á viðeigandi stuðningi, hvatningu, meðferð? Það hafa ekki allir jafn djúpa vasa.

 Á dögunum var skipað í svokallað Endurhæfingarráð heilbrigðisráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis sem ætlað er að vera ráðherrum til ráðgjafar í málum tengdum heilbrigðistengdri endurhæfingu. Einnig hafa háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið nýlega gefið út að nú verði liðkað til í kerfinu svo fleiri sérfræðingar sem t.a.m. hafa sótt sína menntun erlendis fái starfsleyfi landlæknis og eins að fjölga skuli sjúkraliðum. Nýja lífæðin hlýtur þá að verða fjölbreyttari starfshópur sem sinni endurhæfingarþjónustu og þjónustan þar með vonandi litskrúðugari og ábyrgðin dreifðari. Vinnulega séð hlýtur því að fylgja meiri samheldni en jafnframt meira sjálfstæði hvers og eins starfsmanns. Að vera treyst fyrir eigin sérstöðu…

 Það er nefnilega þannig að það þurfa ekki allir það sama og það hafa ekki allir jafn djúpa vasa. Þess vegna óska ég þess heitt að sú kjarnaþjónusta sem boðið er upp á, fyrir þau með grynnstu vasana (og öll hin), fái að vera sem litskrúðugust og hollust. Ég fagna því mikið að rýmka skuli eiga fyrir fjölbreyttari sérfræðingum og fjölbreyttari sérfræðiþjónustu í heilbrigðiskerfi Íslands og ætla mætti að þá og því aðeins með viðurkenningum, styrkjum og starfsleyfum megi tryggja gæði og trausta þjónustu. Litskrúðug og holl endurhæfingarþjónusta – ath. langflestir sem starfsendurhæfingu á Íslandi sækja gera það vegna stoðkerfis- og/eða geðheilbrigðisvanda – ætti að geta sinnt þörfum hins margleita hóps sem hér byggir land; alls konar sálir með alls konar líkama.

 Fyrir mér er danshreyfimeðferð vítamínbomba inn í kerfið og vonast ég til þess að geta sýnt fram á það með vinnu minni hérlendis næstu mánuði. Félag danshreyfimeðferðarfræðinga í Evrópu (e. European Association Dance Movement Therapy, EADMT) skilgreinir meðferðina á eftirfarandi hátt: meðferðarvinna með hreyfingu til að styðja við tilfinningalega, hugræna, líkamlega, andlega og félagslega samþættingu einstaklingsins. Grundvöllur meðferðinnar er sá að hugur og líkami séu samverkandi og fær líkamstjáningin höfuðsæti í þessari sálmeðferð og skapandi listmeðferð. Þetta er mikilvæg viðbót við þau úrræði sem þegar bjóðast því stundum fá orð ekki ofsaflækjur leyst.

 Við erum öll í líkama sem að einhverju leyti hreyfir sig og byrjuðum öll að hafa afskipti við umhverfið okkar með hreyfingunni einni saman. Hef ég hreyft við þér?

 Anna Dúa Kristjánsdóttir M.A. er dans- og hreyfimeðferðarfræðingur og félagi í AkureyrarAkademíunni. Hún er úr þorpinu.

 


Athugasemdir

Nýjast